Þóranna tekur við sem forstjóri Veritas

22.09.2023 Veritas
Þóranna tekur við sem forstjóri Veritas

Stjórn Veritas hefur ráðið Þórönnu Jónsdóttur tímabundið í stöðu forstjóra félagsins, en Hrund Rudolfsdóttir, sem hefur farsællega leitt samstæðuna síðastliðin 10 ár, hefur samið um sín starfslok við stjórn, en mun þó vera stjórn og stjórnendum innan handar.

Félagið stendur á ákveðnum tímamótum, framundan er viðamikil uppbygging framtíðarvöruhúsa og almennra innviða, sem og tækniþróun sem því tengist. Það er sameiginleg ákvörðun stjórnar og fráfarandi forstjóra að tíminn til að skipta um forystu sé réttur.

„Hrund tók við forstjórastarfinu af mér árið 2013 og hafði setið í stjórn Veritas í fjögur ár,“ segir Hreggviður Jónsson, stjórnarformaður Veritas. „Félagið hefur vaxið og eflst svo um munar undir hennar stjórn og stendur fjárhagslega sterkt. Ég þakka Hrund farsælt samstarf undanfarin 14 ár og hennar þátt í þeim góða árangri sem náðst hefur. Það er eftirsjá að henni, en við óskum Hrund velfarnaðar í framtíðarverkefnum. 

„Það er ánægjulegt að stjórnin geti reitt sig á Þórönnu til að stíga inn og brúa bilið fram að ráðningu framtíðar forstjóra. Hún hefur setið í stjórn Veritas síðastliðin fimm ár og var starfsmaður samstæðunnar á árum áður. Þóranna er því vel kunnug málum og var þessi leið talin farsælust til að fylgja Veritas inn í þá vegferð sem framundan er,“ segir Hreggviður.

Um Veritas

Dótturfyrirtæki Veritas eru fimm, Artasan, Distica, MEDOR, Stoð og Vistor en þau byggja öll á traustum grunni með sérhæfingu í innflutningi, vörustjórnun og dreifingu lyfja (frumlyfja og samheitalyfja), hjúkrunarvara, rannsóknartækja og annarra vara fyrir heilbrigðisþjónustu á Íslandi, sölu lausasölulyfja og annarra heilsuvara. Fyrirtækin eru jafnframt leiðandi í ráðgjöf, sölu og þjónustu á hágæða lækningatækjum, hjúkrunar- og rannsóknarvöru auk sölu og þjónustu á stoðtækjum, hjálpartækjum, sjúkraskóm, innleggjum og þrýstingsvörum. Áætlað er að velta félagsins árið 2023 nemi um 33 milljörðum og stöðugildi eru um 260.

Um Þórönnu

Þóranna hefur undanfarið starfað sem sjálfstæður stjórnendaráðgjafi m.a. fyrir Alvotech, Marel og ýmsar opinberar stofnanir. Hún hefur sinnt margvíslegum störfum við Háskólann í Reykjavík, var forseti viðskiptadeildar 2013-2016 og framkvæmdastjóri stjórnunar og rekstrar þar á undan. Hún var framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá systurfélögunum Veritas og Vistor árin 2005-2008, fyrsti framkvæmdastjóri Artasan og ein af stofnfélögum Auðar Capital. Þóranna hefur víðtæka reynslu af stjórnarsetu, er formaður stjórnar Landsbréfa, í stjórn Veritas frá 2018 og áður m.a. í stjórnum Festi, Krónunnar, Íslandsbanka og Lyfju. Þóranna er með doktorsgráðu í viðskiptafræði frá Cranfield University, MBA gráðu frá IESE í Barcelona og MSc gráðu í lyfjafræði.