Júlía Rós nýr framkvæmdastjóri Distica

11.05.2020 Distica + Veritas
Júlía Rós nýr framkvæmdastjóri Distica

Stjórn Distica hefur ráðið Júlíu Rós Atladóttur í stöðu framkvæmdastjóra félagsins.

Júlía Rós tekur við af Gylfa Rútssyni, sem sá um stofnun og uppbyggingu Distica og gegnt hefur starfi framkvæmdastjóra frá stofnun félagsins, eða frá árinu 2007.

Distica er leiðandi á sínum markaði og sérhæfir sig í vörustjórnun fyrir fyrirtæki á heilbrigðismarkaði og dreifir m.a lyfjum, rannsóknartækjum, rekstrarvörum og neytendavörum til sjúkrahúsa, hjúkrunarheimila, tannlækna, dýralækna og verslana. Árstekjur Distica 2019 voru 19,5 milljarðar og stöðugildi 78.

Júlía Rós hefur lokið meistaragráðu í stjórnun og stefnumótun frá Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, diplómanámi í mannauðsstjórnun frá Háskóla Íslands, diplóma í verkefnastjórnun og leiðtogaþjálfun frá Háskóla Íslands, B.Ed. gráðu frá Háskóla Íslands og lyfjatæknanámi frá Heilbrigðisskólanum við Ármúla.

Júlía Rós hefur jafnframt víðtæka reynslu af þjónustu, rekstri  og stjórnun í flóknu umhverfi vörustjórnunar bæði úr lyfjaiðnaði sem utan, en hún starfaði áður sem markaðsstjóri hjá  lyfjafyrirtækinu Vistor, deildarstjóri vöruhúsa hjá Distica, þjónustustjóri hjá Icelandair og verkefnastjóri á þróunarsviði Actavis Group. Síðast starfaði Júlía Rós sem framkvæmdastjóri vörustjórnunarsviðs Coca-Cola á Íslandi. Júlía Rós situr í stjórn Vörustjórnunarfélags Íslands.

Júlía Rós er gift Hermanni Björnssyni og eiga þau fjögur börn á aldrinum 10 til 17 ára. 

Distica er dótturfélag innan Veritas samstæðunnar sem samanstendur af sex fyrirtækjum þar sem hvert dótturfélag hefur sína stjórn og sinn framkvæmdastjóra. Auk Distica eru dótturfélögin; Stoð sem sérhæfir sig í ráðgjöf, sölu og þjónustu á stoðtækjum, hjálpartækjum, sjúkraskóm, innleggjum og þrýstingsvörum. Vist­or sérhæfir sig á sviði markaðssetningar á lyfjum, lausasölulyfjum, heilsuvörum og dýraheilbrigðisvörum. Artas­an sérhæfir sig í sölu og markaðssetningu á heilsuvörum, lausasölulyfjum og samheitalyfjum og MEDOR sem sérhæfir sig í ráðgjöf, sölu og þjónustu á hágæða lækningatækjum, hjúkrunar- og rannsóknarvöru. 

Forstjóri Veritas er Hrund Rudolfsdóttir. Hrund segir „Það er með mikilli gleði og eftirvæntingu að við bjóðum Júlíu Rós aftur velkomna til starfa innan samstæðunnar.  Það eru miklar breytingar í umhverfi félagsins og aukin krafa um hraða og sveigjanleika í þjónustu. Hlutverk Júlíu verður að leiða fyrirtækið og það frábæra starfsfólk sem þar er að finna,  til nýrra tíma og til áframhaldandi forystu í vörustýringu á heilbrigðismarkaði.

Jafnframt vil ég nota tækifærið og þakka Gylfa fyrir samstarfið og hans mikla framlag yfir langan tíma,  bæði  í þágu Distica og eins samstæðunnar í heild á mikilvægum þróunartíma hennar.„

Nánari upplýsingar veitir Hrund Rudolfsdóttir í síma 535-7101.