EN
Samfélag Samfélagsleg áhrif lyfjafyrirtækja Vöruhúsin mikilvæg Stoðtæki fyrir fatlaða Öruggir birgjar Samkeppnisumhverfið Markaðssetning og merkingar Einungis þekktar gæðavörur Eftirlit með heilsuvörum Mikilvægur hlekkur í heilbrigðiskeðjunni Styrkir Virk og sérfræðingarnir Viðurkenningar Gildi Veritas Mannauður Jafnrétti Mannauður framhald

Samfélag

COVID-19 staðfesti mikilvægi okkar í samfélaginu

Lyfjafyrirtæki hafa sjaldan verið jafn mikið í sviðsljósinu og á liðnu ári og samfélagsleg áhrif þeirra hafa verið áberandi. Kapphlaupið um lyf og lækningatæki við COVID-19 einkenndi hluta starfsemi Veritas en góð tenging við helstu birgja gerir að verkum að aðgengi að nauðsynlegum vörum verður auðveldara. Samstæðan byggir þar á margra ára samstarfi við mikilvægustu lyfjabirgjana í heiminum. Veritas er samfélagslega mikilvægt fyrirtæki og tekur hlutverk sitt alvarlega.

Samfélagsleg áhrif lyfjafyrirtækja

„Aðfangakeðjan varð fyrir miklum áhrifum vegna fækkunar flugferða. Við kaupum vörur af 350 mismunandi birgjum og lyfin, sérstaklega viðkvæmustu lyfin, eru send hingað með flugi í auknum mæli. Farþegaflug féll niður að miklu leyti í einu vetfangi og það var virkileg áskorun að finna nýjar leiðir til þess að koma vörunum inn í landið. Í fyrstu bylgju var í raun og veru allt á hvolfi og við þurftum að finna út úr nýjum veruleika. Það reyndi mikið á að leysa ferla- og rekstrarmál en í seinni bylgju þá höfum við notað þau tæki og tól sem við þróuðum í fyrstu bylgju." segir Hrund Rudolfsdóttir, forstjóri Veritas.

Innflutningur á COVID-19 lyfjum fer í gegnum Distica, en félagið sér um heildarlausnir á sviði innflutnings, vörustjórnunar og dreifingar lyfja, vara fyrir heilbrigðisþjónustu og rannsóknarstofur, heilsuvara og neytendavara. Starfsfólk Distica hefur á árinu verið önnum kafið við undirbúning og dreifingu á bóluefni við COVID-19. 

„Distica sér um innflutning, vörustjórnun, móttöku pantana og dreifingu til viðskiptavina. Þau atriði sem skipta mestu máli í rekstri Distica þegar kemur að samfélagslegri ábyrgð eru að tryggja að lyf og aðrar mikilvægar vörur komist heilar á leiðarenda í gegnum okkar innflutnings- og dreifingarferla." segir Júlía Rós Atladóttir, framkvæmdastjóri Distica.

Íslensk heilbrigðisyfirvöld tóku í lok árs á móti fyrstu tíu þúsund skömmtunum af bóluefni Pfizer og BioNTech með formlegum hætti í vörumóttöku Distica í Garðabæ, að viðstöddum heilbrigðisráðherra og fjölmiðlum. Hér má sjá frétt frá blaðamannafundi þegar fyrstu skammtar bóluefnisins voru afhentir.

„Árið 2020 var okkur því mikil áskorun rekstrarlega, reyndi á okkar ferla til hins ýtrasta og og kom afkomulega mjög misjafnlega við dótturfyrirtæki okkar, t.d. í tilviki Stoðar sem er á smásölustigi og stærstu viðskiptavinir aldraðir og fatlaðir, þar hefur Covid áhrifa gætt með mjög neikvæðum hætti.  Við tókum hinsvegar þá stefnu að horfa á öll okkar dótturfyrirtæki með heildstæðum hætti og sækja ekki um stuðning hins opinbera eða beita þeim úrræðum sem eru heimil innan einstakra félaga, s.s. hlutabótaleið, því við töldum að efnahagsleg heildaráhrif á samstæðuna yrðu hlutlaus eða jákvæð og því ekki siðferðilega rétt að þiggja aðstoð.“ segir Hrund.

Vöruhúsin mikilvæg

Veritas er stærsti lyfja- og heilbrigðisvörubirginn fyrir Ísland en 60% af öllum lyfjum landsins fer í gegnum vöruhús félagsins. Ein af áskorunum ársins var að koma í veg fyrir smit af völdum COVID-19 í vöruhúsunum og halda þeim í fullum afköstum. Ef starfsemin raskast hjá vöruhúsunum þá slitnar keðjan og áhrifin á heilbrigðiskerfið væru mikil. Kannski lýsir það best mikilvægi samfélagslegrar ábyrgðar Veritas sem bakhjarls heilbrigðiskerfisins á Íslandi. Hlutverk vöruhúsanna er að taka á móti vörunni, gæðaprófa hana og fylgja eftir þeim ferlum sem gilda um hvern vöruflokk, en miklar gæðakröfur eru gerðar til afgreiðslu lyfja og lækningatækja. Ferlið er rafrænt og viðmið um hitastig er yfirleitt mjög þröngt skilgreint í tilviki lyfja en framleiðendur ákveða skilgreind mörk og taka ákvörðun um hvort lyfin séu í lagi ef um frávik í flutningi er að ræða.

„Vörurnar þurfa að uppfylla ákveðin skilyrði um merkingar og við fylgjum ströngum kröfum um ástand þeirra. Skipulag og hraði skipta miklu máli í rekstri vöruhúsa því það er alltaf einhver sem situr og bíður á hinum endanum, annað hvort eftir lyfjunum eða vantar varahlut á skurðarborðið. Þrátt fyrir kröfu um hraða afgreiðslu getum við ekki gefið afslátt af ferlunum bara vegna þess að einhver bíður. Við getum hnikað til þegar koma þarf hlutunum í framkvæmd með því að starfsfólk mæti fyrr, vinni lengur og fleiri fari í að vinna verkið til þess að koma vörunni hraðar í gegn en erum alltaf bundin af gæðakerfinu sem við vinnum eftir." segir Birgir Hrafn Hafsteinsson, vöruhúsastjóri Distica.

Júlía Rós Atladóttir, framkvæmdastjóri Distica

Samfélagslegsleg ábyrgð og COVID - 19

„Hlutverk fyrirtækisins er gríðarlega mikilvægt þessa dagana en við höfum verið í aðalhlutverki vegna innflutnings á bóluefni við COVID- 19. Við notuðum haustmánuðina til þess að undirbúa okkur undir það stóra verkefni að tryggja Íslendingum aðgengi að bóluefni og dreifingu."

Júlía Rós Atladóttir, framkvæmdastjóri Distica

Distica Voruafgreidsla

Vöruhús Distica Hörgatúni

Distica rekur þrjú vöruhús, í Hörgatúni, Suðurhrauni og Miðhrauni, þar sem hýst eru alls um 16 þúsund vörunúmer á hverjum tíma.

Stoðtæki fyrir fatlaða

Stoð hefur sinnt samfélagslegri ábyrgð frá upphafi með því að hanna og framleiða stoðtæki fyrir einstaklinga með fatlanir. Markmiðið Stoðar er að bjóða upp á heildarlausnir fyrir einstaklinga með fötlun, áverka og sjúkdóma sem valda skertri færni í daglegu lífi. Stoð veitir líka lausnir fyrir þá sem vilja stuðla að heilbrigðum lífstíl og eflir þannig forvarnir.

„Vegna samfélagslegs hlutverks okkar erum við mikilvægur hlekkur á þeirri vegferð að fólk með hindranir geti notið lífsgæða. Til þess að geta sinnt þessum hópi eru m.a. starfandi hjá okkur stoðtækjafræðingar sem eru fáir á Íslandi. Þeir þurfa að leita til útlanda eftir námi í greininni. Stoð hefur t.d stutt stoðtækjafræðinga til náms og erum að styðja stoðtækjafræðing til náms á þessu ári." segir Ása Jóhannesdóttir, framkvæmdastjóri Stoðar.

Ása Jóhannesdóttir, framkvæmdarstjóri Stoð

Stórt hjarta

„Öll félögin vinna mikilvægt starf og hjarta þeirra er stórt. Mig langar í framtíðinni til þess að við verðum sýnilegri og ennþá stoltari af því starfi sem við erum að gera. Mig langar líka að Stoð verði sú miðstöð þar sem fólk getur komið á einn stað og fengið þjónustu og vörur tengt heilbrigði. Hjá okkur þarftu að geta prófað vöruna og skoðað á einum stað. Það er ekki gott að senda veikt fólk á marga staði, eins og kerfið á það til að gera."

Ólafía Ása Jóhannesdóttir, framkvæmdastjóri Stoðar

Öruggir birgjar

Vistor er samstarfsaðili fjölmargra alþjóðlegra lyfjafyrirtækja og veitir þeim þjónustu við skráningar, sölu- og markaðsmál og klínískar rannsóknir. Félagið hefur líka milligöngu um innflutnings- og dreifingarstarfsemi. Það er mikilvægt samfélagslegt málefni hjá Vistor að tryggja öruggan flutning lyfja og þar með framboð frumlyfja til Íslands. Lögð er áhersla á að fara að alþjóðalögum og eftir mjög nákvæmum siðareglum. Það er mikilvægt að starfsemin sé eins gagnsæ og mögulegt er í samræmi við góða stjórnarhætti og viðskiptatrúnað. Félagið tekur ekki þátt í verkefnum sem geta kastað rýrð á orðspor þess eða dregið úr trausti á starfseminni.

Vistor ætlar áfram að vera leiðandi fyrirtæki innan samstæðunnar á sviði markaðssetningar á lyfjum, heilsuvörum og dýraheilbrigðisvörum á Íslandi. Birgjar félagsins eru almennt stór alþjóðleg lyfjafyrirtæki sem tryggja nýjustu lyfin hverju sinni. Eingöngu er skipt við virta aðila sem birta mjög nákvæma staðla sem félagið þarf að standast.

Arnar Þórðarson, framkvæmdastjóri Vistor

Samkeppnisumhverfið

Við störfum í samkeppnisumhverfi og hlítum samkeppnislögum. Við höfum sérstaklega í huga að samkeppni ríkir ekki einungis milli Veritas og dótturfyrirtækja og aðila utan þeirra, heldur einnig á milli fyrirtækja innan samstæðunnar og deilda innan fyrirtækjanna. Stjórnendur og starfsfólk markaðsdeilda fá þjálfun varðandi markmið, tilgang og gildissvið samkeppnislaga. Sjá nánar siðareglur Veritas.

Markaðssetning og merkingar

Veritas sérhæfir sig í rekstri fyrirtækja á sviði heilbrigðisþjónustu og er móðurfélag fyrirtækjanna Artasan ehf., Distica hf., MEDOR ehf., Stoð hf. og Vistor hf. Hvert og eitt starfar undir sínu vörumerki, eins og áður hefur komið fram, en Veritas er kjölfesta samstæðunnar og veitir þjónustu til dótturfyrirtækjanna svo þau geti einbeitt sér að kjarnastarfsemi sinni.

Markaðssetning og merkingar lyfja fylgja ströngum reglum, sem eru settar fram í lyfjalögum (100/2020) og reglugerðum (545/2018) og (980/2016). Í lyfjalögum kemur fram hvaða upplýsingar þurfa að vera á umbúðum lyfja og í fylgiseðlum til þess að lyf uppfylli skilyrði um markaðsleyfi á Íslandi. Einnig kemur þar fram hvaða skilyrði þarf að uppfylla varðandi auglýsingar um lyf. Lyfjastofnun annast útgáfu markaðsleyfa lyfja og eftirlit með að lögum og reglugerðum vegna lyfja sé framfylgt. Brot gegn ákvæðum laganna geta leitt til stöðvunar markaðsleyfis, lögbanns og/eða sekta. Lyfjastofnun getur lagt hald á lyf sem uppfylla ekki skilyrði laga eða reglugerða. Gæðastjóri Vistor hefur eftirlit með því að starfsemi Vistor og Artasan uppfylli lög og reglugerðir.

Distica Sudurhrauni Voruhus

Distica og Artasan Suðurhrauni

Einungis þekktar gæðavörur

Hlutverk allra fyrirtækjanna innan Veritas er samfélagslega mikilvægt. Þegar litið er til Artasan þá sérhæfir fyrirtækið sig í sölu og markaðssetningu á heilsuvörum, lausasölulyfjum og samheitalyfjum auk lækningatækja. Markmiðið er að selja vörur sem stuðla að bættri heilsu, vellíðan og auknum lífsgæðum. 

„Við leggjum metnað okkar í að vera einungis með þekktar gæðavörur frá framleiðendum sem uppfylla ströngustu gæðakröfur. Ég hef orðið var við að sumir birgjanna eru þegar komnir á fullt í að bæta sig í samfélagslegri ábyrgð og er það í takt við kröfur okkar endursöluaðila. Við höfum til að mynda lent í því að endursöluaðili hefur hafnað vöru sem við höfum verið að selja sem var bæði í glasi og pappakassa. Við höfum séð að framleiðendur eru farnir að huga að því að minnka umbúðir og aðrir nota endurvinnanlegar umbúðir." segir Brynjúlfur Guðmundsson, framkvæmdastjóri Artasan.

Eftirlit með heilsuvörum

Artasan er með starfsleyfi frá lyfjastofnun og heilbrigðiseftirliti Garðabæjar til þess að flytja inn og markaðssetja lyf og heilsuvörur. Allar heilsuvörur eru tilkynntar til Matvælastofnunar og áður en þær eru fluttar inn er gengið úr skugga um hvort innihaldsefni séu á lista yfir leyfileg efni og að magn vítamína eða steinefna í þeim daglega neysluskammti sem ráðlagður er á umbúðum vörunnar sé ekki hærri en efri öryggismörk fyrir vítamín og steinefni. Einnig er athugað hvort varan innihaldi efni sem eru skilgreind sem lyf og ef það leikur vafi á því eru þau send til flokkunar hjá viðeigandi eftirlitsstofnun. Áður en markaðssetning hefst þarf að athuga hvort merkingar séu í samræmi við reglur og að fullyrðingar, sem notaðar eru í markaðssetningu, uppfylli reglur.

Brynjúlfur Guðmundsson, framkvæmdastjóri Artasan

Mikilvægur hlekkur í heilbrigðiskeðjunni

Ísland mun á næstunni innleiða evrópskar reglugerðir um lækningatæki í íslenska löggjöf. Um er að ræða evrópskar reglugerðir sem tóku gildi árið 2017 en eru með aðlögunartíma þangað til í maí 2021. Með reglugerðunum á að tryggja öryggi notenda lækningatækja. Lækningatæki verða skráð í miðlægan evrópskan gagnagrunn sem gerir almenningi og notendum kleift að afla upplýsinga um þau lækningatæki sem þeir nota. Öll lækningatæki eiga að bera CE-merki sem á að tryggja að tækin uppfylli settar kröfur. Í reglugerð geta íslensk yfirvöld sett ákvæði um tungumál notkunarleiðbeininga. Lyfjastofnun hefur eftirlit með lækningatækjum og auglýsingum lækningatækja. Veritas muni framfylgja þessari lagabreytingu og er vinnuhópur starfandi við innleiðingu þvert á samstæðuna.

MEDOR var stofnað til þess að mæta vaxandi þörf fyrir sérhæfingu í sölu og þjónustu á hágæða lækningatækjum, hjúkrunar- og rannsóknarvörum. Þannig er MEDOR umboðsaðili þekktustu framleiðenda á sviði lækninga, hjúkrunar og rannsókna og er skipað vel menntuðu starfsfólki sem veitir samstarfsaðilum sérhæfða ráðgjöf og þjónustu.

„Samfélagslegt hlutverk MEDOR er mjög mikilvægt, að mínu mati, en við erum einn af mörgum mikilvægum hlekkjum í heilbrigðiskeðjunni. Við sjáum m.a. til þess að nægilegar birgðir af lækningavörum séu til í landinu þegar heilbrigðiskerfið þarf á þeim að halda. Eitt af okkar hlutverkum á árinu var t.d. að vinna náið með tveimur af okkar birgjum þegar Íslendingar þurftu á sýnatökupinnum að halda." segir Sigtryggur Hilmarsson, framkvæmdastjóri MEDOR.

Sigtryggur Hilmarsson, framkvæmdastjóri MEDOR

Greinum til að gera betur

„Við ætlum að halda áfram að sinna heilbrigðismarkaðnum vel, en þurfum að greina betur hvaða möguleika við höfum á því að minnka kolefnisfótspor okkar án þess að það komi niður á þjónustu við viðskiptavini. Það skiptir miklu máli að rýna birgðastýringuna vel og taka á sama tíma mið af samkeppnisforsendum. Við þurfum að taka umhverfisþáttinn enn meira inn í allar ákvarðanir okkar og vera meðvituð um þá fínu línu að vera umhverfisvæn en uppfylla jafnframt lög og reglugerðir."

Sigtryggur Hilmarsson, framkvæmdastjóri MEDOR

Medor 0104

MEDOR Hafnarfirði

Styrkir

Auk samfélagslegrar ábyrgðar sem liggur í hlutverki félagsins þá vinnur Veritas eftir styrkjastefnu sem styrktarhópur Veritas samþykkti árið 2015, en hann er samansettur af fulltrúum frá öllum félögum samstæðunnar og kemur saman nokkrum sinnum á ári hverju. Styrkjastefnan grundvallast á kjarnahæfni fyrirtækisins, það er að vera bakhjarl í bættri heilsu. Þeim verkefnum er forgangsraðað sem tengjast lyfja- og heilbrigðismálum, meðal annars þeim sem koma auga á, fyrirbyggja og draga úr hugsanlegum skaðlegum áhrifum lyfjanotkunar. Með þetta að leiðarljósi vill samstæðan meðal annars leggja lóð sitt á vogarskálar forvarna gegn neyslu fíkniefna og misnotkun lyfseðilsskyldra lyfja, sem og úrræða fyrir þá sem ánetjast þessum efnum.

Framlag Veritas getur verið með mismunandi hætti; með beinum peningalegum framlögum, í formi vinnuframlags, láns á aðstöðu eða hlutum í eigu samstæðu, við styðjum við málefni í ræðu og riti, gefum tæki og vörur, sköpum atvinnu fyrir þá sem eiga erfitt uppdráttar á atvinnumarkaði o.s.frv.

Sérhvert ár um jólaleytið er okkar stærstu styrkjum útdeilt. Á árinu 2020 var það Hjálparstofnun kirkjunnar sem naut fjárhagsstyrks auk þess sem starfsfólk stóð fyrir fatasöfnun, sem og Kvennaathvarfið.

Virk og sérfræðingarnir

„Við njótum þess að umgangast fjölbreytta flóru starfsmanna og höfum verið í samstarfi við Virk, sem vinnur að því að koma fólki aftur út á vinnumarkaðinn eftir atvinnumissi. Við höfum að auki í nokkur ár átt í farsælu samstarfi um starfsfólk við Sérfræðingana (e. Specialisterne), en það eru samtök einhverfra. Þetta er hluti af þessari samfélagslegu ábyrgð sem mig langar til þess að gera meira af. Tímanum sem varið er í utanumhald um verkefnið er vel varið en stöðugleiki hefur einkennt starfið í nokkur ár, en áður var starfsmannavelta tíð í viðkomandi starfi." segir Júlía Rós Atladóttir, framkvæmdastjóri Distica.

Viðurkenningar

Síðastliðin ellefu ár hefur Creditinfo unnið ítarlega greiningu sem sýnir hvaða íslensku fyrirtæki teljast til fyrirmyndar að teknu tilliti til ýmissa þátta sem varða rekstur og stöðu þeirra. Árið 2020 eru það um 2% íslenskra fyrirtækja sem skráð eru í hlutafélagaskrá, sem stóðust styrkleikamat Creditinfo og teljast því vera Framúrskarandi fyrirtæki 2020. Veritas er stolt af því að vera í hópi Framúrskarandi fyrirtækja, ásamt öllum dótturfélögum sínum árið 2020.

„Við stöndum mjög vel í mörgum þáttum og höfum alls ekki hugsað okkur að bakka á neinum vígstöðvum hvað varðar UFS þættina (umhverfi, félagslega þætti og stjórnarhætti). Umhverfismálin eru samt sá flokkur sem við eigum lengst í land með. Þunginn hjá okkur verður því á umhverfismálunum í framtíðinni. Við fengum viðurkenningu frá Jafnvægisvog FKA á árinu en viðhorf til jafnréttismála hefur alltaf verið jákvætt innan félagsins. Við eigum langa og farsæla sögu í jafnréttismálum og góðum stjórnarháttum." segir Hrund.


Hagaðilar

Hagsmunaaðilar skiptast í innri og ytri aðila. Innri aðilar eru viðskiptavinir, svo sem heilbrigðisstarfsfólk, starfsfólk, eigendur, birgjar og samfélagið á Íslandi. Undir ytri aðila falla stjórnvöld, eftirlitsstofnanir, fjölmiðlar, fjárfestar og hagsmunasamtök. Veritas hefur ekki gert sérstaka hagsmunaaðilagreiningu á forsendum samfélagsábyrgðar en félagið vandar sig í öllum samskiptum við sína hagaðila eins og fram kemur í siðareglum félagsins. Veritas vinnur eingöngu með virtum birgjum á markaði. 

Pétur Veigar Pétursson, starfsmannastjóri Veritas

Mannauður

Árið 2020 var sérstakt fyrir margar sakir. Öll starfsemin var lituð af veiruástandinu og mikil áskorun fólst í að finna nýjar leiðir til þess að halda starfseminni gangandi. Fjarvinna var einkennandi fyrir stóran hluta starfseminnar, þrátt fyrir að margir hafi þurft að standa vaktina í húsi. Mikilvægt verkefni á árinu var að leita leiða til þess að hlúa að starfsmönnum í fjarvinnunni.

„Á árinu var gerður samningur við sálfræði- og ráðgjafastofuna Líf og sál. Stofan sérhæfir sig í verkefnum, ráðgjöf og fræðslu fyrir vinnustaði og félagasamtök. Helstu verkefni þeirra snúa að sálfélagslega hluta vinnuumhverfisins, s.s. líðan starfsfólks, samskiptum, starfsanda, vinnustaðamenningu, stjórnun og áhrifum breytinga." segir Pétur Veigar Pétursson, mannauðsstjóri.

Markmið Veritas Capital og dótturfyrirtækjanna er að þar starfi aðeins besta starfsfólkið sem völ er á hverju sinni. Stefnt er að því að þeir séu ávallt vel menntaðir, rétt þjálfaðir og hæfir til að sinna starfi sínu af fagmennsku, alúð og ánægju. Starfsfólk Veritas samstæðunnar hefur einsett sér að hafa hreinskiptni, framsækni og áreiðanleika að leiðarljósi í öllum sínum störfum. Gildin eru forsenda þess að styrkja traust og stuðla að langtímasambandi á milli fyrirtækjanna, starfsfólksins, viðskiptavina, birgja og samfélagsins. Hér má skoða starfsmannastefnu Veritas í heild sinni.

Farið var í gegnum hátt á fjórða tug ráðningarferla á árinu 2020. Ólíkt fyrri árum voru stjórnendur ekki í aðstöðu til að taka á móti umsækjendum í viðtöl og þurftu því að takast á við þá áskorun að taka stærstan hluta viðtala í gegnum Teams. Þetta kallaði á nýja nálgun og annars konar undirbúning fyrir viðtölin þar sem stór hluti af hefðbundnu ráðningarferli er að hitta umsækjendur og vera í beinum samskiptum við þá.

Ánægt starfsfólk

Starfsánægja er einn af mikilvægustu þáttum hvers vinnustaðar. Ánægja starfsfólks endurspeglast í sterkri vinnustaðamenningu og í þeirri gleði sem við viljum að einkenni vinnustaðinn okkar. Reglulega er gerð ítarleg greining á ýmsum þáttum er snúa að starfsánægju, stjórnarháttum og fleiri þáttum sem máli skipta í starfsumhverfinu. Farið var í vinnustaðagreiningu á árinu í samstarfi við Maskínu og var heildarniðurstaða greiningarinnar jákvæð.

Félagslegir viðburðir hafa verið einkennandi fyrir vinnustaðamenningu samstæðunnar um langt skeið. Reglulegir viðburðir í dagatali hvers árs hafa verið árshátíð, haustfagnaður, hreinsunardagur, hópefli, metnaðarfull jóladagskrá o.fl. Veiruástandið gerði okkur erfitt fyrir í þessu tilliti á árinu og þurftum við að fresta mörgum stórum viðburðum. Farið var nýjar leiðir í fjarskemmtunum og voru árlegu jólatónleikarnir til að mynda sendir út í streymi í þetta sinn.

Líðan á vinnustað

„Á árinu var gerður samningur við sálfræði- og ráðgjafastofuna Líf og sál. Stofan sérhæfir sig í verkefnum, ráðgjöf og fræðslu fyrir vinnustaði og félagasamtök. Helstu verkefni þeirra snúa að sálfélagslega hluta vinnuumhverfisins, s.s. líðan starfsfólks, samskiptum, starfsanda, vinnustaðamenningu, stjórnun og áhrifum breytinga."

Pétur Veigar Pétursson, mannauðsstjóri


Jafnrétti

Allir njóti jafnréttis

Markmið jafnréttisstefnu Veritas og dótturfélaga er að allt starfsfólk félaganna, konur jafnt sem karlar, njóti jafnréttis án tillits til kynferðis, aldurs, trúarbragða, skoðana, þjóðernis, kynþáttar, kynhneigðar, litarháttar, efnahags, ætternis, fjölskyldutengsla eða stöðu að öðru leyti. Allt starfsfólk samstæðunnar skal njóta jafns réttar í hvívetna. Veritas telur að með því að stuðla að jafnrétti fái færni, hæfileikar og þekking allra notið sín í hvetjandi, þægilegu og réttlátu starfsumhverfi.

Jafnréttisstefna Veritas og dótturfélaga er unnin með hliðsjón af lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla 10/2008 og lögum 80/2019 um kynrænt sjálfræði.

Jafnréttisstefnuna má lesa í heild sinni hér.


Mannauður framhald

Starfsmannahandbók uppfærð á árinu

Starfsmannahandbók var uppfærð á árinu. Í handbókinni koma fram ýmsar hagnýtar upplýsingar er varða vinnustaðinn. Þar má nálgast upplýsingar um gildi samstæðunnar, starfsmannastefnu, jafnréttisstefnu, siðareglur, umhverfisstefnu, ásamt stefnu og viðbragðsáætlun vegna eineltis og áreitni á vinnustað.

Í starfsmannahandbókinni er einnig að finna upplýsingar sem snúa að daglegu starfi s.s. starfsmannasamtölum, innri upplýsingavef, starfsmannafundum, upplýsingaöryggi, fundarsölum og mötuneyti, svo eitthvað sé nefnt.

Samkeppnishæf laun

Eitt af markmiðum Veritas er að greiða samkeppnishæf laun miðað við það sem greitt er fyrir sambærileg störf á vinnumarkaði. Árlega tekur Veritas þátt í könnuninni „Markaðslaun á Íslandi“ og í framhaldi eru gerðar launagreiningar fyrir öll störf innan samstæðunnar. Við ráðningar í störf fylgjum við í hvívetna lögum, reglum og kjarasamningum. Við könnum hugsanleg hagsmunatengsl og gætum þess að málefnaleg sjónarmið liggi að baki vali á starfsmönnum. Sjá nánar um réttindi starfsmanna í siðareglum félagsins.

Við greiðum einnig 20% af launum í fæðingarorlofi og gerum samninga við starfsfólk um styrki til náms. Veritas starfar samkvæmt ákvæðum gildandi kjarasamninga hverju sinni er heyra undir Samtök Atvinnulífsins og viðkomandi stéttarfélag. Stærstur hluti starfsmanna samstæðunnar, eða um 70%, er félagsmenn í VR en starfsfólkið er einnig félagsmenn fagstéttarfélaga s.s. Lyfjafræðingafélags Íslands, Verkfræðingafélags Íslands, Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, Félags íslenskra náttúrufræðinga og Rafiðnaðarsambands Íslands, svo eitthvað sé nefnt. Einhverjir starfsmenn hafa kosið að standa utan stéttarfélaga.

Eflum heilbrigði starfsmanna

Hjá Veritas viljum við stuðla að hreyfingu og öðrum heilsueflandi þáttum meðal starfsfólks. Árlega er starfsfólki veittur líkamsræktarstyrkur í formi endurgreiðslu á t.d. líkamsræktarkortum, sundkortum og annars konar heilsueflingu.

Fyrirtækið tekur jafnan þátt í heilsueflandi verkefnum, eins og Hjólað í vinnuna og Lífshlaupinu. Í slíkum verkefnum hafa verið settar upp innanhússkeppnir á milli fyrirtækja og verðlaun veitt fyrir bestan árangur. Veritas tekur á hverju ári þátt í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka þar sem markmiðið er m.a. að styrkja gott málefni. Sérstök undirbúningsnefnd starfar í aðdraganda maraþonsins og hefur sú nefnd m.a. það hlutverk að standa við bakið á þátttakendum, útbúa æfingaplön, standa fyrir reglulegum æfingum, kynningum o.fl.

Sérstök áhersla var lögð á hreyfingu og heilsutengd málefni í verkefni sem kallað var Heilsuveturinn. Í tengslum við það verkefni voru haldnir heilsuleikar innan samstæðunnar þar sem starfsfólk skráði ýmis konar hreyfingu og heilsubætandi þætti en veitt voru verðlaun fyrir besta árangurinn. Sem hluti af verkefninu var boðið upp á heilsutengda fyrirlestra, jógatíma á vinnustaðnum og golfkennslu, svo eitthvað sé nefnt.

Árlega er starfsfólki boðin bólusetning við inflúensu, en það hefur notið mikilla vinsælda. Í hverri viku fær starfsfólk senda ávexti á hvert vinnusvæði. 

Virðing og réttindi

Í siðareglum Veritas kemur fram að leitast sé við að koma fram af virðingu og umburðarlyndi við starfsfólk og viðskiptavini fyrirtækisins. Áreitni, einelti eða baktal er aldrei liðið og á að tilkynna til yfirmanna eða mannauðsstjóra. Starfsfólk er metið að verðleikum og leitast er við að viðhalda fjölbreytni.

„Við mismunum t.d. ekki á grundvelli kynferðis, uppruna, trúar- eða stjórnmálaskoðana. Við veitum starfsfólki af báðum kynjum tækifæri til aukinnar ábyrgðar og framgangs í starfi. Við leitumst við að koma í veg fyrir vinnuslys og verndum andlega og líkamlega heilsu starfsmanna. Við tryggjum góðar vinnuaðstæður fyrir starfsfólk, virðum félagafrelsi og hvetjum starfsfólk til að kynna sér sinn samningsbundna rétt. Við styðjum og framfylgjum mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna og Alþjóða vinnumálastofnunarinnar. Við virðum hámarksvinnustundir og umsamin lágmarkslaun. Við samþykkjum ekki og stöndum gegn nauðungarvinnu, mansali og barnaþrælkun. Við stuðlum að jafnvægi milli vinnu og einkalífs." segir orðrétt í siðareglum Veritas.