EN
Fyrirtækið Ávarp forstjóra Stefna og starfsemi Sjálfbærnimarkmið Veritas Leiðin að markmiðum Stjórnarhættir Yfirstjórn Veritas Ógnanir og tækifæri í ytra umhverfi Siðareglur Stjórnarhættir og starfsreglur stjórnar Stjórnir samstæðunnar Upplýsingaöryggi Samfélagsstefna og áherslumál Um skýrsluna Persónuvernd

Fyrirtækið

Stjórnarhættir, samfélag og sjálfbærni hjá Veritas

Það er með mikilli gleði sem við birtum í fyrsta sinn sjálfbærni- og samfélagsskýrslu Veritas samstæðunnar. Samfélagsmál í öllum sínum margbreytilegu formum hafa ætíð verið áherslumál okkar en heildstæð samantekt á fjölbreyttum verkefnum okkar í umhverfismálum, stjórnarháttum og félagslegum þáttum hefur ekki verið gerð áður. Við höfum lagt mikla áherslu á að sjálfbærniverkefni okkar verði unnin þvert á samstæðuna með þátttöku starfsmanna frá öllum félögunum. Við trúum því að með samstöðunni vinnum við fleiri sigra.

Ávarp forstjóra

Hrund Rudolfsdóttir, forstjóri Veritas

Veritas samstæðan samanstendur af sex fyrirtækjum sem öll starfa innan lyfja- og heilbrigðisgeirans. Samanlagt erum við stærsti birgi heilbrigðisgeirans og skilgreinum okkur stolt sem órjúfanlegan hluta af og bakhjarl heilbrigðiskerfisins á Íslandi. Slíku hlutverki fylgir hins vegar mikil ábyrgð, bæði hvað varðar fagmennsku og öryggi í rekstri, en ekki síður sú skylda að vera góður og gegn þjóðfélagsþegn, sem er bæði ljúft og skylt að axla sína samfélagslegu ábyrgð.

Það hefur verið mjög ánægjulegt að fara í þessa vegferð og að mínu mati mjög mikilvægt að ná heildaryfirsýn yfir þau fjölmörgu samfélagslegu verkefni og hlutverk sem samstæðan hefur unnið að. Það er sérstaklega gleðilegt að sjá aðkomu allra starfsmanna á einn eða annan hátt. Aðkoman hefur bæði verið sem hluti af starfi viðkomandi en einnig sem einlægur áhugi og einstaklingsframtak stjórnenda og starfsmanna, sem hefur oft leitt af sér frábær úrbótaverkefni.

Við höfum einsett okkur að gera betur á sviði umhverfismála í framtíðinni, auk þess að taka saman árangurinn í þessari skýrslu sem hefur verið okkar áhersla á árinu. Á árinu fengum við gullmerki jafnlaunaúttektar PWC ásamt viðurkenningu Jafnvægisvogar FKA. Þar að auki gerðumst við aðilar að Festu, miðstöð um samfélagsábyrgð. Við erum mjög þakklát fyrir þessar viðurkenningar og lítum á þær sem leið til hvatningar til áframhaldandi góðra verka.

Hrund Rudolfsdóttir, forstjóri Veritas

Stefna og starfsemi

Veritas og dótturfélög starfa á sviðum heilbrigðisþjónustu.

Veritas Capital ehf. er í einkaeigu og er félagið með starfsemi á sex stöðum á höfuðborgarsvæðinu og jafnframt með minniháttar starfsemi á tveimur stöðum á Kaupmannahafnarsvæðinu. Höfuðstöðvar samstæðunnar eru í Hörgatúni 2. Heildarvelta samstæðunnar er 24,88 milljarðar og fjöldi stöðugilda var í lok árs 248.

Stefna Veritas er að sérhæfa sig í rekstri fyrirtækja á sviði heilbrigðisþjónustu. Veritas er móðurfélag fyrirtækjanna Vistor hf., Distica hf., Artasan ehf. MEDOR ehf og Stoð ehf. Veritas er kjölfesta samstæðunnar og veitir þjónustu til dótturfyrirtækjanna svo þau geti einbeitt sér að kjarnastarfsemi sinni. Með þessu móti vinnum við með heilbrigðiskerfinu að því að auka lífsgæði Íslendinga. Fyrirtækin eru samstarfsaðilar alþjóðlegra fyrirtækja á heilbrigðissviði. Þau sérhæfa sig í vörustjórnun, innflutningi og dreifingu lyfja, hjúkrunarvara, rannsóknartækja og annarra vara fyrir heilbrigðisþjónustu á Íslandi. Einnig selja þau  lausasölulyf og aðrar heilsuvörur og eru leiðandi fyrirtæki í ráðgjöf, sölu og þjónustu á ýmsum stoðtækjum og vörum.

Samstæðan setti sér markmið um vöxt og fjölþættingu sem unnið hefur verið skipulega að frá 2015 til dagsins í dag, bæði með innri vexti og útvíkkun á starfsemi, en alltaf innan skilgreinds ramma heilbrigðissviðs.

Markmiðin taka til:

  • Vaxtar í tekjum og arðsemi
  • Markaðshlutdeildar á núverandi mörkuðum, sem og markmiða í öflun nýrra tekjuþátta
  • Ánægju viðskiptavina
  • Skipulags og aukinnar framleiðni með rafrænum lausnum
  • Gæða í ferlum og starfsháttum
  • Stjórnarhátta og starfsánægju starfsmanna

Sjálfbærnimarkmið Veritas

Heildarumfang losunar frá starfseminni er háð umfangi starfsemi Veritas. Starfsmenn og stjórnendur ætla að setja sér metnaðarfull markmið til þess að vinna að á árinu og til næstu ára. Til þess að geta borið saman losun á milli ára var settur fram stuðull sem er losun CO₂ á hvert ársstarf. Einnig var ákveðið að skoða stuðulinn kolefnisjöfnun út frá veltu. Sá stuðull er áhugaverður þar sem hann sýnir enn betur árangur samstæðunnar í að draga úr kolefnislosun, sjá meðfylgjandi mynd af áætluðum markmiðum:


-3% til -6%

Minnka CO₂/starfsmann um 3-6% 2021 vs 2020

-10%

Minnka eldsneytisnotkun um 10% miðað við 2020

-15%

Draga úr flutningi á vörum með flugi um 15% miðað við 2020

-50%

Draga úr ferðalögum starfsmanna með flugi, 50% lækkun miðað við 2019

-12%

Minnka prentun á pappír um 12% miðað við 2020

65%

Endurvinnsluhlutfall sorps fari í 65%

50%

Veritas kolefnisjafnar 50% af kolefnisfótspori 2021

100%

Veritas kolefnisjafnar 100% af kolefnisfótspori 2025





Stjórnarhættir

Gagnsæi, heiðarleiki og siðferði.

Veritas leggur áherslu á gagnsæi, heiðarleika og siðferði í starfi sínu. Í heiðri eru höfð gildi fyrirtækisins og dótturfélaga þess; áreiðanleiki, hreinskiptni og framsækni. Fyrirtækið fylgir leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja sem Viðskiptaráð o.fl. hafa gefið út, en þær fela í sér leiðbeiningar um innleiðingu reglna sem eru umfram það sem kveðið er á um í lögum og ætlað er að styrkja innviði fyrirtækisins og traust þess út á við.

Hægt er að lesa um siðareglur, starfsmannastefnu, starfsreglur stjórnar, stjórnarhætti og upplýsingaöryggisstefnu Veritas og dótturfélaga með því að smella á krækjurnar hér fyrir neðan.

Skipurit Veritas

Yfirstjórn Veritas

Ógnanir og tækifæri í ytra umhverfi

Starfsemi samstæðunnar er háð ytri aðstæðum á ýmsa vegu en veigamestu áhrifaþættirnir eru:

  • Þróun íslensku krónunnar hefur veruleg áhrif á heildarafkomu samstæðunnar, þar sem lyfjaverð er skráð í erlendri mynt. Einnig eru margir samningar við hið opinbera tengdir gengi með einum og öðrum hætti. Vörukaup samstæðunnar eru einnig í erlendri mynt að nær öllu leyti, sem og ýmsir þjónustusamningar við erlenda birgja. Mikil hreyfing íslensku krónunnar getur því haft margvísleg áhrif á rekstur og starfsemi.
  • Stór hluti af starfsemi samstæðunnar liggur innan skilgreinds ramma heilbrigðiskerfisins og er starfsemin því vörðuð lögum, reglugerðum og opinberu eftirliti á ýmsa vegu. Samstæðan er því háð pólitískum og stjórnsýslulegum ákvarðanatökum, sem oft eru ekki fyrirsjáanlegar og tækifæri til að koma á framfæri athugasemdum eru fátækleg.

Siðareglur

Kjarnastarfsemi samstæðunnar er innflutningur og markaðssetning lyfja og kallar starfsemin á vönduð vinnubrögð. Siðareglur, sem gilda fyrir alla samstæðuna, voru settar árið 2018 en það eru sérstakar reglur sem snúa að samskiptum við heilbrigðisstarfsmenn. Alþjóðlegar siða- og samskiptareglur lyfjafyrirtækja og heilbrigðisstarfsmanna eru einnig hafðar í forgrunni, EFPIA . Markmiðið með reglunum er að tryggja fagleg vinnubrögð við markaðssetningu lyfja og að allar ákvarðanir opinberra starfsmanna séu hafnar yfir allan vafa. Samskiptareglur eru í samræmi við kröfur ESB tilskipunar 2001/83/EC, með síðari breytingum.

Jafnframt eru í gildi siðareglur samstæðunnar sem snúa að samskiptum við alla aðra en heilbrigðisstarfsmönnum.

Stod 6204

Stoð, Hafnarfirði

Starfsmannastefna

Veritas starfar samkvæmt ákvæðum gildandi kjarasamninga hverju sinni er heyra undir Samtök atvinnulífsins og viðkomandi stéttarfélaga. Stærstur hluti starfsmanna Veritas samstæðunnar eða um 70% er félagsmenn í VR en aðrir starfsmenn eru félagsmenn fagstéttarfélaga s.s. Lyfjafræðingafélags Íslands, Verkfræðingafélags Íslands, Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, Félags íslenskra náttúrufræðinga og Rafiðnaðarsambands Íslands, svo eitthvað sé nefnt. Einhverjir starfsmenn hafa kosið að standa utan stéttarfélaga.

Meginmarkmið starfsmannastefnu Veritas eru:

  • Að starfsánægja sé ávallt í hámarki til að efla liðsheild og hámarka árangur í starfi
  • Að launakjör séu samkeppnishæf við það sem greitt er fyrir sambærileg störf á markaði
  • Að gæta jafnréttis í einu og öllu
  • Að stuðla að jafnvægi á milli starfs og einkalíf.
  • Að tryggja að upplýsingamiðlun uppfylli þarfir starfsmanna og fyrirtækisins
  • Að starfsmenn fái reglulega hreinskiptna og uppbyggilega endurgjöf um frammistöðu sína
  • Að uppfylla í öllu þarfir og kröfur birgja og þess lagaumhverfis sem við búum við
  • Að tryggja starfsþróun með sí- og endurmenntun starfsmanna
  • Að starfsmenn kappkosti að vinna að eflingu liðsheildar og miðla þekkingu og reynslu á þann hátt að það nýtist öðrum jafnt sem þeim sjálfum.

Hér má sjá starfsmannastefnu Veritas í heild sinni.

Stjórnarhættir og starfsreglur stjórnar

Stjórn Veritas leggur áherslu á að tileinka sér góða stjórnarhætti og hefur gagnsæi, heiðarleika og gott siðferði að leiðarljósi. Þá hefur stjórnin einnig í heiðri gildi fyrirtækisins og dótturfélaga þess; áreiðanleika, hreinskiptni og framsækni. Stjórnin leggur sig fram um að nýta leiðbeiningar um stjórnarhætti fyrirtækja, sem Viðskiptaráð o.fl. hafa gefið út, í því skyni að auka gæði stjórnarstarfsins og fylgir tilmælum þeirra eða útskýrir frávik eftir því sem við á í þessari stjórnarháttayfirlýsingu.

Stjórn Veritas gefur á hverju ári út stjórnarháttayfirlýsingu í tengslum við ársskýrslu. Stjórnin annast um að skipulag félagsins og starfsemi sé jafnan í góðu horfi, svo og að hagsmuna allra hluthafa sé ávallt gætt. Hún fer með æðsta vald í málefnum félagsins á milli hluthafafunda og ber meginábyrgð á rekstri þess. Stjórn hefur forystu ásamt forstjóra við mótun stefnu og setningu markmiða. Stjórnin ber endanlega ábyrgð á rekstri félagsins og leggur því áherslu á að hafa góða yfirsýn yfir starfsemina og veita stjórnendum eðlilegt aðhald.

Stjórnarháttayfirlýsingin gerir grein fyrir því hvernig samsetningu og verklagi stjórnar var háttað á undangengnu ári og má finna hér.

Í Veritas eru virkar stjórnir yfir öllum félögum og með samsetningu stjórnarmanna í hverju félagi fyrir sig er leitast við að fá til liðs við samstæðuna ytri stjórnarmenn með sérþekkingu og reynslu á viðkomandi sviði í bland við innri stjórnendur.

Fjöldi stjórnarmanna er 3-4 og er þess gætt að hlutfall kynjanna innan sérhverrar stjórnar sé í samræmi við leiðbeiningar um stjórnarhætti. Hver stjórn setur sér starfsreglur og framkvæmir reglulega mat á eigin starfsháttum. Stjórnarmenn upplýsa að lágmarki árlega um hagsmuni sem gætu skapað hagsmunaárekstur. Tíðni stjórnarfunda er mismunandi eftir félögum og eftir því sem ástæða er til, en eru að lágmarki 4 sinnum á ári. Engar undirnefndir stjórna eru starfandi hjá félaginu.

Hver stjórn setur sér starfsáætlun, sem er uppfærð reglulega, þar sem gætt er jafnvægis á milli fjárhagslegra og ófjárhagslegra málefna, s.s. jafnréttismála, samfélagsmála og umhverfismála.

Framkvæmdastjórn ber ábyrgð á ákvarðanatöku um efnahagslega, umhverfislega og félagslega þætti. Hún hefur falið umhverfisnefnd að vinna að helstu verkefnum umhverfismála, mannauðsstjóra að fjalla um félagslega þáttinn og forstjóri og stjórn fjalla um stjórnarhætti.

Hér fyrir neðan er yfirlit yfir alla stjórnarmenn samstæðunnar, stjórnarformaður Veritas er jafnframt stærsti hluthafi félagsins.

Hluthafar

Hluthafar eru þrír, Stormtré, Trausttak og Stjánkur:

  • Stormtré ehf., 90%, í eigu Hreggviðs Jónssonar stjórnarformanns Veritas (sem situr jafnframt í stjórnum MEDOR, Stoð og Vistor) og Jóhanns Jónssonar, stjórnarmanns í Distica.
  • Trausttak ehf. – 6%.
  • Stjánkur ehf. – 4%, í eigu Hrundar Rudolfsdóttur forstjóra.

Stjórnarháttayfirlýsing Veritas

Stjórnir Samstæðunnar 2021 Mars

Stjórnir samstæðunnar

Upplýsingaöryggi

Veritas samstæðan vinnur fyrir u.þ.b. 350 erlenda birgja sem stundum geta átt í innbyrðis samkeppni og gera því miklar kröfur um trúnað og varðveislu gagna. Móðurfélagið ber ábyrgð á rekstri upplýsingakerfa fyrir samstæðuna og vinnur samkvæmt upplýsingaöryggisstefnu sem tekur mið af og er vottuð samkvæmt ISO/IEC 270001.

Veritas er handhafi skírteinis nr. IS 607526 frá BSI (The British Standards Institution) í London og er það vottun þess að fyrirtækið starfræki stjórnkerfi upplýsingaöryggis sem uppfyllir kröfur ISO/IEC 27001:2013. Veritas og dótturfélög þess fylgja upplýsingaöryggisstefnu sem tekur mið af ISO/IEC 27002, Starfsvenjur fyrir stjórnun upplýsingaöryggis.

Skoða vottunarskjal.

Samfélagsstefna og áherslumál

Veritas gerðist aðili að Festu, félagi um samfélagsábyrgð á árinu og eru útreikningar skýrslunnar gerðir samkvæmt loftslagsmæli Festu. Félagið lætur til sín taka í umhverfisvernd, öryggismálum, jafnréttismálum, málrækt, stuðningi við starfsfólk af erlendum uppruna og í bættu heilbrigði og mataræði. Áherslur í mannauðsmálum varða jafnrétti kynjanna, vinnuvernd, fjölbreytni og forvörnum gegn einelti. Tekin var meðvituð ákvörðun um að það yrði breiður hópur starfsmanna sem myndi koma að málaflokknum.

„Ég lagði strax á það mikla áherslu að við myndum vinna þetta sem samstæða og verkefnið yrði keyrt áfram af móðurfélaginu. En þeir sem hafa áhuga á málaflokknum gátu til dæmis boðið sig fram í umhverfisnefnd. Margir af mikilvægustu ferlum okkar fara þvert í gegnum samstæðuna  og eru því áhugaverðir útfrá umhverfissjónarmiðum. Áhuginn á umhverfismálum hefur sprottið upp hér og þar í fyrirtækinu. En þegar við settum verkefnið í formlegan farveg var gerð krafa um að það væri fulltrúi fyrir öllum fyrirtækjunum.

Helsti sjálfbærniárangur okkar á árinu er að ná heildaryfirsýn í öllum þessum málaflokkum fyrir samfélags- og sjálfbærniskýrsluna og leggja grunninn að því að gera enn betur með markmiðssetningu. Við höfum líka náð árangri með ýmsum umbótaverkefnum liðinna ára og þurfum að nota þann árangur okkar líka til þess að gleðjast yfir sigrunum og sem hvata til áframhaldandi ávinninga. Við höfum náð að nálgast þessi mál með skipulögðum hætti og taka á þeim á viðskiptalegum forsendum. Við ákváðum að vinna þetta verkefni eins og við vinnum önnur rekstrarverkefni og nálgumst það eftir þekktri aðferðafræði og lærum af reynslu annarra. Í ár settum við málaflokkinn virkilega á dagskrá og tókum verkefnið föstum tökum með þeim tólum og tækjum sem okkur er tamt að gera í fyrirtækjarekstrinum." segir Hrund Rudolfsdóttir, forstjóri Veritas.

„Sjálfbærni er hluti af viðskiptastefnunni og það er stórt skref fyrir okkur."

„Við erum fyrirtæki í einkaeigu og við erum sjálf að ákveða að taka þessi mál föstum tökum og þar með ögra okkur. Við erum að gera reksturinn okkar gagnsæjan  með hreinskiptni gildið okkar að leiðarljósi. Við ætlum að vera hreinskiptin í takt við þróun hjá öðrum fyrirtækjum í heiminum."

Hrund Rudolfsdóttir, forstjóri Veritas

Um skýrsluna

Þessi skýrsla er fyrsta samfélagsskýrsla Veritas samstæðunnar og tekur til ársins 2020. Hún verður gefin út einu sinni á ári. Mælingar fyrir 2019 verða jafnframt sýndar að einhverju leyti þar sem 2020 var óvenjulegt ár fyrir margra hluta sakir. Skýrslan er gefin út samkvæmt viðmiðum Global Reporting Initiative GRI Standards: Core. Starfsmenn af öllum sviðum félagsins koma að ritun skýrslunnar. Þær upplýsingar sem birtast í skýrslunni koma úr upplýsingakerfum félagsins og endurspegla þá þekkingu sem félagið hafði þegar skýrslan var rituð. Umhverfishópur tók saman upplýsingar um umhverfismál og reiknaði út kolefnisfótspor félagsins. Hluti upplýsinganna kemur fram í viðtölum sem tekin voru við helstu stjórnendur. Einnig var ákveðið að láta fylgja hugmyndafræði og myndbönd sem notuð hafa verið í innleiðingu umhverfisstefnunnar s.s. Flokkóber.

Veritas er gert upp sem samstæða og allar tölur eru settar fram á samstæðugrunni, þ.e. innbyrðis færslur eru færðar út. Í einstaka tilfellum kjósum við að horfa einnig til systurfélags Veritas, Hávarðsstaða, sem á og rekur stóran hluta af þeim fasteignum sem Veritas hefur til umráða. Er það tekið fram sérstaklega, ef við á.

Tengiliðir vegna upplýsinga er varða skýrsluna og efni hennar eru Hrund Rudolfsdóttir, Pétur Veigar Pétursson, Kjartan Steinsson og Dagmar Ýr Sigurjónsdóttir. Leiðsögn og gæðatrygging skýrslunnar var í höndum Podium ehf.

Persónuvernd

Veritas hefur sett sér stefnu og reglur varðandi meðferð persónuupplýsinga til þess að tryggja að fyrirtækið fari eftir lögum íslenska ríkisins nr. 90/2018 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Veritas veitir starfsmönnum og viðskiptavinum sínum örugga og trausta þjónustu með því að:

  • Kappkosta að hverskonar persónuupplýsingar sem Veritas safnar og vistar séu meðhöndlaðar samkvæmt lögum og reglugerðum um vernd persónulegra gagna þ.e. laga nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.
  • Hámarka öryggi og réttleika persónuupplýsinga sem varðveittar eru hjá fyrirtækinu.
  • Starfsmenn og umsækjendur séu upplýstir um hvaða persónuupplýsingar um þá eru varðveittar, hvernig þær eru vistaðar, hver hafi aðgang að þeim og hvenær þeim verði eytt.
  • Tryggja að viðbrögð við öryggisbrestum séu skv. lögum.

Persónuverndarstefna Veritas
Persónuverndarreglur umsækjanda, starfsmanna og viðskiptavina.

Voruhus 0179

Vöruhús Distica Miðhrauni