EN
Umhverfi 11% minni losun Tækifæri í grænni orku Óbein losun Efnisnotkun Kolefnisjöfnun Flokkóber Kanínur og plokkari Endurvinnsluhlutfall á milli ára Mat á umhverfisáhrifum birgja Pappírslaus samskipti Ræstingar Hringrásarhagkerfið Ábyrg lyfjaförgun

Umhverfi

Okkur er annt um umhverfi okkar

Stjórnendur og starfsmenn Veritas láta sér annt um umhverfið og hafa ýmis verkefni verið unnin í gegnum árin. Umhverfisstefna var mótuð árið 2018 og í kjölfarið tók umhverfisnefnd til starfa. Með umhverfisstefnu Veritas og dótturfélaga er leitast við að fyrirtækið valdi sem minnstri mengun í umhverfinu og dragi úr álagi á það sem og auðlindir heimsins. Meginkaflar stefnunnar eru vistvænar samgöngur, umhverfisvæn innkaup, flokkun sorps og bæting verkferla. Stefnan er endurskoðuð reglulega með það í huga að bæta enn frekar áhrif fyrirtækisins til umhverfismála. Umhverfisnefnd Veritas sér um að stefnunni sé fylgt eftir.

Umhverfi

Ruslatunnur voru fjarlægðar frá starfsfólki árið 2014 til þess að auka meðvitund um það sem lendir í ruslinu. Auk hefðbundinna umhverfisverkefna hafa matjurtir verið ræktaðar í garðinum frá 2012 og eru þær notaðar í mötuneytinu ásamt því að ávaxtatrjám var plantað í Hörgatúninu. Pappír er flokkaður í gæðapappír og dagblöð/tímarit/umslög. Árið 2017 var gert átak í að minnka prentun í fyrirtækinu og var prenturum fækkað og þeir staðsettir miðlægt. Veittir hafa verið samgöngustyrkir til starfsmanna til þess að hvetja til umhverfisvænna samgangna. Notkun á pappírsdúkum í föstudagskaffi var hætt ásamt því að hætt var að nota einnota pappírsmál og pappadiska á árinu 2019. Flokkað er í mötuneyti og á kaffistofum fyrirtækjanna, lífrænt, plast, pappi/pappír og almennt ásamt því að vistvæn efni eru notuð við þrif. Rafhlöður eru flokkaðar og hitasíritar eru settir í kar sem Íslenska Gámafélagið fargar á réttan hátt.

859 tonn

Heildarlosun (CO₂) 2020.

963 tonn

Heildarlosun (CO₂) 2019.

-11%

Breyting milli ára.

-78 tonn CO₂

COVID áhrif - færri flug starfsmanna.

Dagmar Ýr Sigurjónsdóttir, markaðsstjóri hjá Vistor (Novo Nordisk)

11% minni losun

Heildarlosun frá samstæðunni var 963 tonn CO₂ á árinu 2019 og var mesta losunin vegna bensínnotkunar starfsmanna eða 285 tonn CO₂. Losunin dróst saman um 11% á árinu 2020 og fór niður í 859 tonn, aðallega vegna COVID-19 og minni ferðalaga starfsmanna í kjölfarið. Eldsneytisnotkun, innflutningur með flugi og dreifing á vörum innanlands losuðu mest eða samtals 709 tonn árið 2020. Mikil tækifæri eru til umbóta fyrir samstæðuna, bæði hvað varðar útskiptingu á bílum og í minnkandi innflutningi með flugi.

Heildarlosun vegna flugs starfsmanna var 22 tonn CO₂ árið 2020, þar af 19 tonn CO₂ vegna flugferða starfsmanna til útlanda. Á árinu 2020 var 78% minni losun gróðurhúsalofttegunda vegna flugferða starfsmanna í samanburði við 2019. Færri flugferðir skýrast af ferðatakmörkunum vegna COVID-19.

Heildarlosun vegna flutnings aðkeyptra vara var 314 tonn CO₂ árið 2019, þar af var losun vegna flutninga með flugi 236 tonn CO₂. Heildarlosun árið 2020 vegna flutnings aðkeyptra vara var 336 tonn CO₂ og jókst því um 7% miðað við árið 2019. Aukningin er til komin vegna þess að stærri sendingar voru fluttar inn með flugi vegna COVID-19.

Losun CO₂ við innflutning er háð vegalengd sem varan er flutt og stærð sendingar. Reiknað er með tuttugu sinnum meiri losun vegna flutnings með flugi í samanburði við flutnings með skipi. Tölur sýna losun fyrir allan innflutning á vörum samstæðunnar. 63% af kolefnislosuninni er hins vegar vegna innflutnings á vörum þar sem birgi ber ábyrgð á innflutningnum.

Heildarumfang losunar er háð umfangi starfsemi Veritas. Til að geta borið saman losun á milli ára er því settur fram stuðull sem er losun CO₂/starfsmann.

„Við gætum í framtíðinni lagt meiri áherslu á að finna vörur sem eru hagstæðar umhverfinu og halda því á lofti við okkar birgja."

„Við þurfum líka að verða meðvitaðri um það hvernig vörur við erum að kaupa inn. Ég er nýbúinn að sjá tölur yfir flugsendingar en flugið er með mjög hátt kolefnisspor. Ferðalögin hjá okkur hafa einnig vegið mjög hátt en almennt ferðumst við mikið á sýningar og fundi. Það er eitthvað sem við getum haft bein áhrif á. Við getum lagt meiri áherslu á að panta fleiri vörur með skipum heldur en flugi og ferðast minna á sýningar. Mjög marga fundi er hægt að taka á vefnum. Flugið er eingöngu notað af nauðsyn þegar liggur á lyfjunum eða ef eitthvað klikkar í aðfangakeðjunni. Það kemur einnig fyrir að við erum að kaupa lítið magn t.d. af nýjum birgja að flugið er hagstæðara. Þá er sú leið valin."

Brynjúlfur Guðmundsson, framkvæmdastjóri Artasan







Tækifæri í grænni orku

Árið 2019 var fjöldi ökutækja samstæðunnar 80 og heildar eldsneytisnotkun 122 þúsund lítrar. Árið 2020 var fjöldi ökutækja 88 og heildar eldsneytisnotkun 120 þúsund lítrar. Distica fjölgaði bílum fyrir flutning á vörum í stað þess að kaupa þjónustu af þriðja aðila. Án breytts fyrirkomulags Distica hefði bein losun eldsneytis dregist saman um 12%.

Eitt af meginmarkmiðum Veritas er að tryggja að orkunotkun sé haldið í lágmarki og leitast er við að draga úr mengun í allri starfsemi. Rafmagnsnotkun og notkun á heitu vatni hjá Veritas samstæðunni var í heild 14 tonn CO₂ eða um 2% af heildarlosun samstæðunnar og er öll orka til húshitunar græn orka. Losun samstæðunnar hverju sinni er háð umfangi starfseminnar og takmörkuð tækifæri eru í að draga úr losun fyrir þessa liði. Nánast enginn munur er á rafmagnsnotkun á milli ára en notkun á heitu vatni hjá samstæðunni jókst um 2% á milli ára, aðallega vegna aukningar hjá Distica um 10%.



Óbein losun

Óbein losun frá starfseminni, þ.e. losun vegna vara/þjónustu annarra og losun vegna vöru og þjónustu starfseminnar er að hluta til tilgreind í skýrslunni. Þar má nefna innflutning á vörum, dreifingu á vörum, meðhöndlun úrgangs og flugs bæði innanlandsflugs og flugs erlendis.


Efnisnotkun

Árið 2018 var fjárfest í endurnýtanlegum kössum til flutninga á vörum frá Distica og eru frauðkassar einungis notaðir í einstaka sendingum. Leitast er við að endurnýta sem best tróð sem notað er til þess að vernda vörurnar, en mest er notað af brúnum pappa og bóluplasti. Á það þó eingöngu við um vörur en ekki lyf. Notkun á plastpokum hefur minnkað umtalsvert á milli ára. Aukning hefur aftur á móti verið á innkaupum á bóluplasti og strekkifilmum á milli áranna 2019-2020 en það skýrist að nokkru leyti af auknum umsvifum á milli ára í heilsuvörum, þar sem vörur eru afhentar í brettatali.


Kolefnisjöfnun

Veritas hefur gert samning við Kolvið um kolefnisjöfnun bifreiða í eigu samstæðunnar. Kolefnisspor Veritas samstæðunnar árið 2020 fyrir kolefnisjöfnun var 859 tonn CO₂. Veritas samstæðan gróðursetti 275 tré í samstarfi við starfsmenn og kolefnisjafnaði þannig 281 tonn CO₂. Heildar kolefnisfótspor samstæðunnar árið 2020 var því 578 tonn CO₂.

Reiknivélin miðar við meðalbindingu á ári í skógi - án tillits til binditíma upp á 60 ár eins og Kolviður gerir. Því eru reikningar byggðir á því að einhver binding verði á hverju ári sem má færa inn í bókhaldið, ekki aðeins einu sinni eins og hjá Kolviði. Hér er miðað við bindingu með þeirri blöndu trjáa sem Kolviður notast við.


Flokkóber

Árið 2018 var farið í herferð í flokkunarmálum fyrirtækisins og flokkunarskipulag betur mótað en áður. Það skilaði bættum flokkunarárangri. Frá 2018 hefur árlega verið haldinn Flokkóber í október en sá mánuður er nýttur til aukinnar fræðslu og tiltektar í flokkunarmálum, ef á þarf að halda og einnig til þess að vekja fólk almennt til umhugsunar um flokkun og umhverfismál. Síðastliðin ár hefur utanaðkomandi ráðgjafi heimsótt fyrirtækin og veitt ráðgjöf í flokkunarmálum. Hvert og eitt fyrirtæki hefur síðan tekið málin í sínar hendur. Í Flokkóber er fræðsla á sal og tíðar færslur á Workplace um flokkun og umhverfismál. Leitast er við að hafa alvöru og léttleika í bland til þess að fanga athygli starfsmanna. Vegna samkomutakmarkana 2020 var meginþungi Flokkóber á Workplace það árið.

Persónan Ruslana varð til í Flokkóber verkefninu fyrir nokkrum árum en það er Sonja B. Guðfinnsdóttir sem bjó til þá persónu.

Sonja Björg Guðfinnsdóttir í umhverfisnefnd Veritas

Ruslana verður til

„Við gerðum ekki neina sérstaka áætlun fyrir Ruslönu en þessi myndbönd í ár bara gerðust því ég á það til að framkvæma þær vitleysur sem mér detta í hug. Mér finnst gaman að koma skilaboðum til fólks með jákvæðum hætti og nota gjarnan húmorinn til þess að fræða og fá fólk til þess að hugsa. Það er fínt að fá frelsi til að framkvæma það sem manni dettur í hug þó lyfjafræðivinna mín gangi auðvitað alltaf fyrir. Ef það er tími í smá skemmtilegheit þá er gaman að framkvæma það. Það eru engin framtíðarplön með Ruslönu, hún hefur ekki verið formlega ráðin í umhverfisnefnd Veritas." segir Sonja B. Guðfinnsdóttir.

Sonja B. Guðfinnsdóttir, umhverfisnefnd Veritas

Ruslana, ruslamálaráðherra Veritas

Kanínur og plokkari

Mikil áhersla er lögð á að draga úr matarsóun og er fræðsla til starfsmanna mikilvægur þáttur í því að allir dansi í takt. Mötuneytið er í lykilstöðu þegar kemur að útfærslu á markmiðum Veritas í umhverfismálum. Í björtum og glæsilegum matsal með útsýni yfir Esjuna nærast starfsmenn og hittast. Matreiðslumeistarinn Jón Elvar Hafsteinsson er óþreytandi í því að finna upp nýjar og spennandi leiðir við að lágmarka matarsóun í félaginu.

„Ég nýti matinn mjög vel og bý til nýja, skemmtilega og óvænta rétti. Einn vinsælasti rétturinn hjá mér er úr umframhráefni sem hefur farið í frystinn. Það er plokkfiskur sem ég geri úr úrvalshráefni, oftast kartöflum og fiski. Plokkfiskurinn er gerður einu sinni í mánuði úr þessu fína hráefni sem hefur orðið afgangs aðra daga þegar fiskur hefur verið á borðum. Þegar samstarfskona okkar hóf að baka gríðarlega gott rúgbrauð þá jukust vinsældir réttarins. Mér finnst þetta góð stefna í grunninn en auðvitað verða að vera einhverjar línur í þessu, en aðalatriðið er að ef maður er með gott hráefni þá er óþarfi að henda því. " segir Jón Elvar Hafsteinsson, matreiðslumeistari.

„Við flokkum kálafskurða á sérstakan stað og gefum kanínubændum til fóðurs fyrir kanínurnar þeirra. Einnig fara hrísgrjónaafgangar til hænsnabónda ef þeir hafa ekki nýst í annað. Við reynum alltaf að láta matinn nýtast sem best og fyrir nokkrum árum tókum við upp á því að bjóða starfsmönnum að taka umframmat með sér heim á föstudögum. Það hefur mælst mjög vel fyrir." segir Jón Elvar.

Endurvinnsluhlutfall á milli ára

Íslenska gámafélagið (ÍGF) þjónustar Veritas með alla sorphirðu. Árið 2019 hóf ÍGF útflutning á almennu sorpi til orkuvinnslu í Evrópu og því er ekkert af því sorpi sem ÍGF sækir til Veritas urðað.

Veritas hefur það að markmiði að auka flokkun á sorpi, stuðla að endurnýtingu og endurvinnslu. Miðað er við að endurvinnsluhlutfall sé 50% eða hærra. Endurvinnsla hefur gengið vel með samhentu átaki en ennþá er verk að vinna. Endurvinnsluhlutfall samstæðunnar hefur verið að batna á undanförnum árum og er nú komið í 60% en hlutfallið jókst um 5% milli áranna 2019 og 2020.

Magn urðunarúrgangs minnkaði um 8 tonn og urðun lífræns úrgangs minnkaði um 1 tonn.



Mat á umhverfisáhrifum birgja

Fyrirtæki Veritas leggja mikinn metnað í að vera einungis með þekktar gæðavörur frá framleiðendum sem uppfylla ströngustu gæðakröfur. Það skiptir máli að leitast við að hafa áhrif á birgjana en smæð félagsins hefur þar einnig áhrif og því verða áhrifin á birgjana alltaf háð því. Aftur á móti eru birgjar Veritas leiðandi í sjálfbærnimálum en ekki fylgjendur og leggja sífellt meiri áherslu á að bæta sig í sjálfbærni og samfélagslegri ábyrgð. Að auki eru endursöluaðilar farnir að gera kröfur og hafna vörum sem ekki eru í umhverfisvænum umbúðum eða í of miklum umbúðum. Þannig fær sjálfbærni sífellt meira vægi.

„Það skiptir máli í markaðssetningunni hjá okkur að geta sagt að vörurnar séu framleiddar á umhverfisvænan hátt eða að framleiðandinn kolefnisjafni sinn rekstur. Það er auðveldara að markaðssetja þannig vörur og ef maður getur valið á milli A og B þá verða skilaboðin alltaf betri með vöru A ef hún er sjálfbærari. Við höfum ekki sett neina fyrirvara í birgjamatið hjá okkur um samfélagslega ábyrg sjónarmið en við höfum frekar áhuga á vörum sem eru lífrænar, vistvænar og allt það. Við höfum líka áhuga á vörum sem skapa okkur tekjur og reynum almennt að flagga því í sölu ef vörurnar eða umbúðirnar eru í sjálfbærum flokki." segir Brynjúlfur Guðmundsson, framkvæmdastjóri Artasan.

„Við höfum tekið mjög jákvætt skref á árinu hvað varðar birgjana. Þegar við erum að velja okkur samstarfsaðila þá horfum við sérstaklega til samfélagslegrar ábyrgðar þeirra. Það er í raun hápunkturinn á því sem við höfum verið að gera í ár. Við erum ekki bara að athuga hvort tilboðið sem við fáum sé gott fjárhagslega heldur sendum við líka spurningalista á samstarfsaðila okkar þar sem þeir þurfa að svara því hvað þeir eru að gera í sambandi við samfélagsleg málefni. Mér finnst það ótrúlega mikið framfaraskref og þannig munu samstarfsaðilar okkar hjálpa okkur á þeirri vegferð að verða samfélagslega ábyrg fyrirtæki og áhrifin verða ennþá meiri en ella. " segir Arnar Þórðarson, framkvæmdastjóri Vistor.

Pappírslaus samskipti

Markmið fyrirtækisins er að auka hlutdeild pappírslausra viðskipta sem þó uppfylla allar gæðakröfur. Miðað er við að útprentun á pappír sé í lágmarki og minnki með árunum.

11% fækkun varð á fjölda prentaðra blaða á milli áranna 2019 og 2020 . Það skýrist af ýmiss konar breyttu verklagi innan samstæðunnar s.s. innleiðingu rafrænna undirskrifta, aukningu á pappírslausum samskiptum innanhúss og rafrænni vistun gagna. Unnið er að því að minnka pappír sem fer með sendingum úr húsi og fá viðskiptavinir upplýsingarnar sendar með rafrænum hætti. Einnig eru í gangi fleiri umbótaverkefni sem munu leiða af sér minni prentun hjá samstæðunni en magn útprentaðra blaða per vinnudag er 3.300 blöð. Miðað við markmið 2021 er til mikils að vinna að umbótum.


Ræstingar

Dagar sjá um allar ræstingar hjá fyrirtækinu en Dagar eru Svansvottað fyrirtæki sem leggur áherslu á umhverfismál. Frá árinu 2009 hefur efnanotkun minnkað um 60,8% á hvern ræstan fermetra hjá þeim. Dagar axla samfélagslega ábyrgð á þrennan hátt: í starfsemi fyrirtækisins, í mannauðsmálum

og á sviðum er varða íslenskt samfélag. Dagar urðu fyrir valinu vegna þess að fyrirtækið lætur til sín taka í umhverfisvernd, öryggismálum, jafnréttismálum, málrækt, stuðningi við starfsfólk af erlendum uppruna og í bættu heilbrigði og mataræði. Dagar eru einnig aðili að Festu, er fyrirmyndarfyrirtæki Creditinfo og innan fyrirtækisins starfar vinnuhópur um samfélagslega ábyrgð.

Hringrásarhagkerfið

Samstæðan stendur mjög vel í mörgum þáttum sjálfbærni og samfélagsábyrgðar en stjórnendur og starfsmenn eru sammála um að halda áfram að sækja fram. Umhverfismálin eru sá flokkur sem kallar hvað mest á áherslur og breytingar og því verður þungi samstæðunnar á þau næstu misserin, eins og lesa má í skammtíma- og langtímamarkmiðum. Einnig hafa stjórnendur verið að velta fyrir sér hvernig nýta megi hugmyndafræðina um hringrásarhagkerfið í rekstrinum.   

„Við gætum farið að velta fyrir okkur að greina betur þau efni sem eru í tækjunum með tilliti til hringrásarhagkerfisins. Er hægt að endurnýta meira? Hvað verður um eldri tæki? Það er engin spurning að hægt er að taka meira tillit til umhverfismála, en hér er verið að vinna með ýmis efni. Eðli málsins samkvæmt þá erum við að sérsníða svo mikið af tækjum fyrir fólk sem hentar þeirra þörfum en ekki annarra. Það er aftur á móti spurning hvernig hægt væri að nota efniviðinn aftur eða senda til endurnýtingar." segir Ólafía Ása Jóhannesdóttir, framkvæmdastjóri hjá Stoð.

Ábyrg lyfjaförgun

Ein þeirra hugmynda sem komið hefur upp hjá fyrirtækinu er að hefja átak sem skapar meðvitund um ábyrga lyfjaförgun. Verklagsreglur um förgun lyfja eru skýrar en lyfjum þarf að farga samkvæmt ströngum kröfum Lyfjastofnunar. Öll lyf sem farga þarf frá samstæðunni fara til förgunar í Kölku, eyðingarstöð á Suðurnesjum. Kalka er eina fyrirtækið sem hefur leyfi Umhverfisstofnunar til að eyða lyfjum. Þegar eftirritunarskyldum lyfjum er fargað fer starfsmaður frá Distica með og fylgir þeim alla leið í brennslu. Einnig berast lyf frá einstaka apóteki og heilsugæslustöðvum sem fá sömu meðferð og lyf frá Veritas.

Á árinu 2019 var 19.823 kg af lyfjum fargað en aðeins 7.787 kg árið 2020. Magnið árið 2020 er óvenju lágt en vegna COVID-19 var farið í færri eyðingarferðir. Búast má við því að tölurnar fyrir 2021 verði hærri fyrir vikið. Önnur fyrri ár voru einnig skoðuð, eins og sést á myndinni.