EN
Samfélag Markmiðin okkar Samfélagsleg áhrif lyfjafyrirtækja Dreifing úr þremur vöruhúsum Stoð- og hjálpartæki Öruggir birgjar Samkeppnisumhverfið Markaðssetning og merkingar Eftirlit með heilsuvörum Reglugerð um lækningatæki Samfélagsstuðningur Viðurkenningar Mannauður Félagslegir viðburðir Jafnrétti Starfsánægja mikilvæg Fræðsla og þjálfun Þjónustuvegferð

Samfélag

Mikilvægi Veritas í samfélaginu

Heilbrigðisfyrirtæki hafa sjaldan verið jafn mikið í sviðsljósinu og á liðnum árum og samfélagsleg áhrif þeirra hafa verið áberandi. Kapphlaupið um lyf og lækningatæki vegna COVID-19 hefur undanfarin ár einkennt hluta starfsemi Veritas. Samstæðan byggir þar á margra ára samstarfi við mikilvægustu lyfja- og lækningatækjabirgja í heimi. Félagið er mikilvægur hlekkur í heilbrigðiskerfi landsins og tekur hlutverk sitt alvarlega.


Sigríður Pálína Arnardóttir Lyfjafræðingur og eigandi Reykjanesapóteks

Sigríður Pálína ræðir hennar sýn á sjálfbærni og samfélagsábyrgð og það hvernig viðskiptavinir, Veritas og dótturfélög geta unnið saman í átt að markmiðum.

Samfélagsleg áhrif lyfjafyrirtækja

Veritas samstæðan samanstendur af móðurfélaginu Veritas og fimm dótturfélögum sem öll starfa á heilbrigðismarkaði. Móðurfélagið sinnir stoðþjónustu fyrir dótturfélögin. Distica veitir þjónustu í innflutningi og dreifingu á lyfjum, lækningatækjum og heilsuvörum. Vistor er leiðandi fyrirtæki á sviði markaðssetningar á lyfjum, heilsuvörum og dýraheilbrigðisvörum. MEDOR sérhæfir sig í ráðgjöf, sölu og þjónustu á hágæða lækninga-, hjúkrunar- og rannsóknavörum. Artasan sérhæfir sig í sölu og markaðssetningu á lyfjum og heilsuvörum. Stoð er leiðandi í ráðgjöf, sölu og þjónustu á stoðtækjum, hjálpartækjum, sjúkraskóm, innleggjum og þrýstingsvörum.   

Dreifing úr þremur vöruhúsum

Distica er mikilvægur hlekkur í heilbrigðisþjónustu á Íslandi og fjöldi sjúklinga, heilbrigðisstofnana og apóteka reiða sig á þjónustu þeirra á hverjum degi. Hlutverk Distica er að tryggja lyfja- og lækningatækjabirgðir í landinu. Hlutverk þeirra hefur nú verið útvíkkað en í kjölfar húsnæðisbreytinga hjá Stoð mun Distica taka við rekstri á þeirra vöruhúsi sem áður var til staðar í Trönuhrauni. Við það verður til ákveðin samlegð og vonast er til þess að breytt vinnulag skapi hagræði.  

„Það er ákveðin áskorun sem felst í því að vera með vöruhús á þremur stöðum bæði hvað varðar flæði starfsfólks og akstur. Við erum með eitt vöruhús fyrir lyf, eitt vöruhús fyrir lækningatæki og eitt vöruhús fyrir aðrar heilbrigðistengdar vörur. Við erum að vinna í því að taka inn birgja til okkar sem eiga með okkur ákveðin samlegðaráhrif í dreifingu. Það eru sem dæmi ákveðnir heildsalar sem nýta sér þjónustu okkar. Það er kannski stærsta áskorunin fyrir okkur til framtíðar að finna bestun í því að dreifa úr þessum þremur vöruhúsum eða jafnvel skoða varanlegri lausnir til framtíðar til sameiningar í eitt vöruhús. " segir Oddný Sófusdóttir, rekstrarstjóri Distica.   

Mikilvægi Distica í íslensku samfélagi

„Hlutverk Distica er að tryggja lyfja- og lækningatækjabirgðir í landinu. Lyf og lækningatæki eru lífsnauðsynleg og hlutverk okkar því samfélagslega mikilvægt."

Júlía Rós Atladóttir, framkvæmdastjóri Distica

Stoð- og hjálpartæki

Stoð hefur sinnt samfélagslegri ábyrgð frá upphafi og er mikilvægur hlekkur í heilbrigðisþjónustu fyrir þá sem þurfa á stoð- og hjálpartækjum að halda. Lykilatriðið við að veita þessum mikilvæga hópi þjónustu er í fyrsta lagi að hlusta og greina þarfir skjólstæðinga okkar og í öðru lagi að stofnanir og einkafyrirtæki eins og Stoð vinni þétt og náið saman. „Markmið okkar er skýrt, sem er að tryggja réttindi fólks til aðgengis- og þátttöku í þjóðfélaginu og stuðla þannig að bættum lífsgæðum. Stoð axlar ábyrgð og hefur því uppbyggjandi áhrif á samfélagið“, segir Ólafía Ása Jóhannesdóttir, framkvæmdastjóri Stoðar.

Öruggir birgjar

Vistor er samstarfsaðili fjölmargra alþjóðlegra lyfjafyrirtækja og veitir þeim þjónustu við skráningar, sölu- og markaðsmál og klínískar rannsóknir. Félagið hefur líka milligöngu um innflutnings- og dreifingarstarfsemi. Það er mikilvægt samfélagslegt málefni hjá Vistor að tryggja öruggan flutning lyfja og þar með framboð frumlyfja til Íslands. Lögð er áhersla á að farið sé að alþjóðalögum og eftir mjög nákvæmum siðareglum. Mikilvægt er að starfsemin sé eins gagnsæ og mögulegt er í samræmi við góða stjórnarhætti og viðskiptatrúnað. Félagið tekur ekki þátt í verkefnum sem geta kastað rýrð á orðspor þess eða dregið úr trausti á starfseminni. Vistor skiptir eingöngu við virta aðila sem fara að ströngustu kröfum, eru leiðandi á sínu sviði og gera því sömu kröfur á Vistor sem viðskiptavin og fulltrúa þeirra á markaði. Það sama á einnig við um önnur dótturfélög samstæðunnar.  

Við höfum á árinu unnið í því að fækka flugsendingun í samráði við okkar birgja. Okkur hefur tekist að breyta sendingarmáta í þeim pöntunum sem við stjórnum sjálf en þar hefur fækkað verulega í flugi. Birgjarnir eru almennt jákvæðir fyrir breytingum og vilja styðja þá vegferð sem samstæðan er á með tilliti til umhverfissjónarmiða. Það er þó að mörgu að hyggja við flutninga á jafn viðkvæmum vörum og lyf eru og þar er aðalatriðið að tryggja gæði og afhendingaröryggi. Sú vinna er í gangi og í dag er virkt samtal milli Vistor og þeirra átta birgja þar sem samstarfið veldur mestri losun kolefnis." segir Arnar Þórðarson, framkvæmdastjóri Vistor.  

Samkeppnisumhverfið

Veritas starfar í samkeppnisumhverfi og hlítir samkeppnislögum. Samkeppni ríkir ekki einungis á milli Veritas og dótturfyrirtækja og aðila utan þeirra, heldur einnig á milli fyrirtækja innan samstæðunnar og deilda innan fyrirtækjanna. Stjórnendur og starfsfólk markaðsdeilda fá þjálfun varðandi markmið, tilgang og gildissvið samkeppnislaga. Sjá nánar siðareglur Veritas. 

5O5A3281

Markaðssetning og merkingar

Hvert og eitt dótturfélaganna starfar undir sínu vörumerki. Markaðssetning og merkingar lyfja eru settar fram í lyfjalögum (100/2020) og reglugerðum (545/2018) og (790/2021). Í lyfjalögum kemur fram hvaða upplýsingar þurfa að vera á umbúðum lyfja og í fylgiseðlum til þess að lyf uppfylli skilyrði um markaðsleyfi á Íslandi. Einnig kemur þar fram hvaða skilyrði þurfi að uppfylla varðandi auglýsingar um lyf. Lyfjastofnun annast útgáfu markaðsleyfa lyfja og hefur eftirlit með að lögum og reglugerðum vegna lyfja sé framfylgt. Brot gegn ákvæðum laganna geta leitt til stöðvunar markaðsleyfis, lögbanns og/eða sekta.  

Eftirlit með heilsuvörum

Artasan er með starfsleyfi frá heilbrigðiseftirliti Garðabæjar til þess að flytja inn og markaðssetja heilsuvörur. Áður en heilsuvörur eru fluttar inn er gengið úr skugga um hvort innihaldsefni séu á lista yfir leyfileg efni og að magn vítamína eða steinefna í þeim daglega neysluskammti sem ráðlagður er á umbúðum vörunnar sé ekki hærri en efri öryggismörk fyrir vítamín og steinefni. Einnig er athugað hvort varan innihaldi efni sem eru skilgreind sem lyf og ef það leikur vafi á því eru þau send til flokkunar hjá viðeigandi eftirlitsstofnun. Áður en markaðssetning hefst þarf að athuga hvort merkingar séu í samræmi við reglur og að fullyrðingar, sem notaðar eru í markaðssetningu, uppfylli reglur. 

Reglugerð um lækningatæki

Ný lög um lækningatæki tóku gildi 2020 (132/2020) og hafa þau áhrif á fyrirtæki innan Veritas samstæðunnar. Innan samstæðunnar var starfandi vinnuhópur með fulltrúum frá hverju fyrirtæki sem sá um að innleiða breytingar á ferlum og kerfum til að uppfylla auknar kröfur um markaðssetningu lækningatækja. Kröfur um markaðssetningu og merkingar eru settar fram í lögunum sem og reglugerðum sem styðja lögin, þ.m.t. reglugerð um notkunarleiðbeiningar sem fylgja lækningatækjum sem ætluð eru almenningi (789/2021). Lyfjastofnun sinnir markaðseftirliti með lækningatækjum og hefur nú þegar gert úttekt á markaðssetningu lækningatækja frá MEDOR og Vistor. 

Samfélagsstuðningur

Veritas vinnur eftir sérstakri styrkjastefnu sem grundvallast á kjarnahæfni fyrirtækisins, það er að vera bakhjarl í bættri heilsu. Þeim verkefnum er forgangsraðað sem tengjast lyfja- og heilbrigðismálum, meðal annars þeim sem hafa eftirlit með, fyrirbyggja og draga úr hugsanlegum skaðlegum áhrifum lyfjanotkunar. Árlega velur sérstök styrkjanefnd þau málefni sem Veritas styrkir með beinum fjárframlögum. Á síðasta ári voru það Kvennaathvarfið og Samhjálp sem urðu fyrir valinu.

Á hverju ári tekur starfsfólk Veritas þátt í Reykjavíkurmaraþoninu þar sem markmiðið er m.a. að styrkja gott málefni.

Einnig efnir Veritas, á hverju ári, til fatasöfnunar fyrir jólin. Þar gefst starfsfólki kostur á að gefa föt til Rauða krossins sem notuð eru til mannúðarverkefna bæði heima og erlendis.

Veritas hefur verið í samstarfi við Virk til nokkurra ára og innan þess má nefna mjög farsælt samstarf við Sérfræðingana (e.Specialisterne), samtök einhverfra, með því að fá til starfa starfsfólk á þeirra vegum.

Viðurkenningar

Veritas stendur styrkum stoðum og hlaut á síðasta ári viðurkenninguna Framúrskarandi fyrirtæki frá Creditinfo tíunda árið í röð.

Veritas er jafnframt á lista Viðskiptablaðsins og Keldunnar yfir fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri 2022.

Þá fengu Veritas og dótturfélagið Artasan viðurkenninguna fyrirmyndarfyrirtæki VR 2022 en Veritas var þar í hópi meðalstórra fyrirtækja og Artasan í hópi lítilla fyrirtækja.

Veritas hlaut einnig viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar árið 2022 á ráðstefnu Jafnvægisvogar FKA (Félags kvenna í atvinnulífinu). Markmið Jafnvægisvogar um 40/60 kynjahlutfall í efsta stjórnendalagi var haft til hliðsjónar við matið og náði Veritas því markmiði.

Veritas leggur áherslu á góða umhirðu lóðar fyrirtækisins í Garðabæ og hlaut fyrirtækið umhverfisverðlaun Garðabæjar fyrir snyrtilegustu lóð fyrirtækis 2022.

5O5A3328

Mannauður

„Árið var mjög annasamt þar sem umfang starfseminnar er að aukast og fyrirtækið að stækka. Á árinu var ákveðið að bæta við stöðugildi í mannauðs- og sjálfbærnimál hjá fyrirtækinu til þess að koma til móts við auknar áherslur í málaflokkunum. " segir Pétur Veigar Pétursson, mannauðsstjóri Veritas. 

Markmið Veritas og dótturfyrirtækjanna er að þar starfi aðeins besta starfsfólkið sem völ er á hverju sinni. Stefnt er að því að starfsfólk sé ávallt vel menntað, rétt þjálfað og hæft til að sinna starfi sínu af fagmennsku, alúð og ánægju. Hér má skoða starfsmannastefnu Veritas í heild sinni. 

„Á árinu fórum við í gegnum 40 ráðningarferli en á bak við hverja ráðningu er langt ferli, auglýsingar, yfirlestur umsókna, viðtöl og úthringingar. Með stækkun deildarinnar mun skapast rými til þess að sinna enn betur öðrum mikilvægum mannauðsmálum. Á sjálfbærnivinnustofum félagsins kom fram skýr vilji stjórnenda til þess að styrkja bæði mannauðs- og sjálfbærnihluta félagsins. " segir Pétur. 

Félagslegir viðburðir

Félagslegir viðburðir hafa verið einkennandi fyrir vinnustaðamenningu samstæðunnar um langt skeið. Árið 2022 lifnaði aftur yfir félagslífi starfsmanna, eftir Covid, og var það kærkomið. Árshátíð var einnig haldin í fyrsta sinn í þrjú ár og var haldið til Bilbao, þar sem árshátíðin fór fram í stórkostlegri umgjörð leikvangs knattspyrnuliðsins Athletic Bilbao.

Haustfagnaðurinn var á sínum stað, fjölskyldudagurinn var haldinn hátíðlegur og árlegur hreinsunardagur með búningum og skemmtunum var haldinn þar sem m.a. var boðið upp á sirkusveislu í húsnæði Veritas. Jólatónleikarnir í ár voru haldnir í Fríkirkjunni í Reykjavík þar sem starfsfólk hlýddi á hugljúfa tónlist KK og Pálma Gunnarssonar. Einnig hélt starfsmannafélagið ýmsa aðra viðburði.

Hópi starfsmanna sem eru hættir störfum vegna aldurs var boðið í morgunkaffi í maí og var glatt á hjalla og kærkomnir endurfundir gamalla vina og kunningja. Jónsi kokkur, ásamt starfsfólki mötuneytisins, bauð upp á einstakt jólahlaðborð þegar líða tók að jólum og áttu starfsmenn hátíðlega stund saman, þar sem sænski Lúsíukórinn gladdi okkur með söng.

Stór hluti af upplýsingamenningu fyrirtækisins eru reglulegir starfsmannafundir sem haldnir eru annan hvern föstudag fyrir samstæðuna í heild og á móti eru haldnir fundir félaga annan hvern föstudag. Á fundunum er farið yfir þau mál sem efst eru á baugi hverju sinni í starfsemi fyrirtækja samstæðunnar.


Jafnrétti og jafnlaunavottun

Á síðasta ári var unnið í jafnlaunavottun fyrir Distica, Veritas, Vistor og Stoð og lauk þeirri vinnu í upphafi ársins 2023. Hluti af því að fara í gegnum jafnlaunavottun var að móta nýja jafnréttis- og jafnlaunastefnu. Markmið jafnréttis- og jafnlaunastefnu Veritas og dótturfélaga eru að innan samstæðunnar ríki jafnrétti og að allt starfsfólk njóti sanngirni og jafnra tækifæra án tillits til kynferðis, aldurs, trúarbragða, stjórnmálaskoðana, þjóðernis, kynþáttar, kynhneigðar, litarháttar, efnahags, ætternis, fjölskyldutengsla, fötlunar eða stöðu að öðru leyti. Jafnréttisstefna Veritas og dótturfélaga tekur til starfsfólks allra félaga samstæðunnar. Jafnréttisstefnan er unnin með hliðsjón af lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla 10/2008 og lögum 80/2019 um kynrænt sjálfræði. 

Jafnréttisstefnuna má lesa í heild sinni hér  


Starfsánægja mikilvæg

Markmið Veritas samstæðunnar er að þar starfi aðeins besta starfsfólkið sem völ er á hverju sinni og er starfsánægja mikilvæg. Til þess að fylgjast með því tekur samstæðan reglulega þátt í VR könnun sem er hitamælir á því hvernig samstæðan stendur sig. Viðamikil starfsmannakönnun/vinnustaðagreining var einnig gerð á árinu en hún er yfirleitt framkvæmd á tveggja ára fresti.  

„Könnunin sýndi ákveðnar vísbendingar um að við gætum gert betur. Heildareinkunn Veritas fór örlítið niður ef miðað er við árin áður. Við erum að upplifa ákveðna niðursveiflu og þreytu eftir COVID hjá okkar starfsfólki líkt og önnur fyrirtæki eru jafnframt að finna fyrir og því þarf að fylgjast með. " segir Pétur. 

5O5A3070

Fræðsla og þjálfun

Á árinu hófst viðamikil vinna við að efla fræðsluumhverfið hjá samstæðunni. Ákveðið var að semja við fyrirtækið Akademias um aðgengi að námsefni og fræðslusprettum. Félögin hafa fengið aðgengi að gagnabanka sem inniheldur 100 rafræn námskeið sem starfsmenn geta tekið sjálfir á sínum vinnutíma. Í framhaldinu eru haldnar vinnustofur til þess að dýpka skilninginn. Kosturinn við að gera þetta svona er að starfsmenn koma undirbúnir á vinnustofuna og taka frá tíma fyrir endurmenntun.

Í upphafi verður farið í heilsutengd og vinnuréttarleg málefni. Hvernig takast á við streitu, hvernig skapa á góða vinnustaðamenningu og þar fram eftir götunum. Allir fara í gegnum sama pakka til að byrja með en síðan eru mismunandi sprettir valdir fyrir mismunandi hópa. Sett verður upp skráning í upplýsingakerfi sem heldur utan um fræðsluna.

Þjónustuvegferð

Þjónustuvegferð Veritas má rekja nokkur ár aftur í tímann og skiptist verkefnið í grófum dráttum í undirbúning og gangsetningu verkefnisins ásamt skilgreiningu. Farið var í greiningarvinnu og ytri og innri þjónustuferlar rýndir með það að markmiði að straumlínulaga, stytta boðleiðir og gera þær skilvirkari. Að því búnu var mótuð þjónustustefna og markmið, hannaðar voru meginlínur umbóta ásamt því að umbótaverkefnum var forgangsraðað. Sett voru fram vel skilgreind þjónustugildi, eitt lið, góð upplifun og snjallar lausnir.  

Við framkvæmd umbótaverkefna var skipaður stýrihópur sem ásamt vinnuhópum kom með hugmyndir að umbótum og aðgerðum. Þjónustuverkefnið var megináhersla stjórnendadagsins 2021 þar sem 30 manna stjórnendahópur vann í teymum við að koma auga á þjónustuumbætur. Fjölmörg verkefni hafa skilað umbótum á verklagi og í tæknilausnum síðan s.s. vefverslun og nýtt CRM kerfi.  

Formleg innleiðing þjónustustefnunnar fór fram á síðast ári með kynningu ásamt ýmsum viðburðum og uppákomum. Þjónustusögum, var safnað og starfsfólk sendi hrós á samstarfsfólk fyrir góða þjónustu o.fl. Lokapunkturinn var uppskeruhátíð þar sem þjónustumolinn var kynntur til leiks en þjónustumolinn er gylltur steinn sem afhentur er á föstudagsfundum þeim starfsmanni sem veitir þjónustu sem er umfram væntingar.  

Árangur í þjónustu

Gerðar eru þjónustukannanir hjá samstæðunni annað hvort ár. Sem dæmi um árangur af nýrri þjónustustefnu var merkjanlegur munur á ánægju viðskiptavina á árinu 2021 og 2022. Hvorki meira né minna en tæp 80% viðskiptavina eru ánægðir eða mjög ánægðir með þjónustuna og þar fjölgar þeim sem eru mjög ánægðir um 2%.  

Viðskiptavinir voru auk þess spurðir eftirfarandi spurningar: Ef hægt væri að kaupa alla vöru (lyf, lækningatæki og neytendavöru) hjá einum heildsala. Við hvern er líklegast að þú myndir eiga viðskipti? 73% svöruðu Distica líkt og sjá má á meðfylgjandi mynd en appelsínugula línan táknar Distica. 

Það er í takt við afkomu fyrirtækisins þar sem tekjur jukust um 4,6% á milli ára.