EN
Fyrirtækið Ávarp forstjóra Sjálfbærnimarkmið Veritas Stefna og starfsemi Yfirstjórn Veritas Dagmar Ýr Sigurjónsdóttir, markaðsstjóri hjá Vistor Stjórnarhættir Ógnanir og tækifæri í ytra umhverfi Siðareglur Stjórnarhættir og starfsreglur stjórnar Stjórnir samstæðunnar Upplýsingaöryggi Samfélagsstefna og áherslumál Um skýrsluna Persónuvernd

Fyrirtækið

Stjórnarhættir, samfélag og sjálfbærni hjá Veritas

Sjálfbærni- og samfélagsskýrsla Veritas samstæðunnar birtist nú í annað sinn og því má segja að ákveðnu hringferli sé lokið. Mikill lærdómur hefur verið dreginn af þessu ferli á árinu og ef til vill má segja að því lengra sem samstæðan stígur inn í það, því betur sjáum við þá fjölmörgu möguleika sem í því felast. Í fyrra var stærsta viðfangsefnið að ná saman heildstæðri samantekt á fjölbreyttum verkefnum okkar í umhverfismálum, stjórnarháttum og félagslegum þáttum, sem ekki hafði verið gerð áður. Í ár hefur athyglin frekar dregist að markmiðasetningu, hönnun viðeigandi mælikvarða og að finna leiðir til að ná árangri varðandi þá. Sú staðreynd birtist okkur einnig ljóslega að tækifæri til umbóta eru mjög mismunandi á milli félaga samstæðunnar, enda er starfsemi þeirra ólík. Engu að síður stendur sú staðreynd að með samræmdu átaki í sjálfbærniverkefnum og með þátttöku starfsmanna frá öllum félögum samstæðunnar, erum við hagkvæmari, skilvirkari og líklegri til að ná árangri.

Ávarp forstjóra

Hrund Rudolfsdóttir, forstjóri Veritas

Veritas samstæðan samanstendur af sex fyrirtækjum sem öll starfa innan lyfja- og heilbrigðisgeirans. Samanlagt erum við stærsti birgi heilbrigðisgeirans og skilgreinum okkur stolt sem bakhjarl og órjúfanlegan hluta af heilbrigðiskerfi Íslands. Slíku hlutverki fylgir hins vegar mikil ábyrgð, bæði hvað varðar fagmennsku og öryggi í rekstri, en ekki síður sú skylda að vera góður og gegn þjóðfélagsþegn, sem er bæði ljúft og skylt að axla sína samfélagslegu ábyrgð.

Árið hefur verið mjög sérstakt á margan hátt, en Covid hefur litað mjög starfsemina, ekki bara vegna þeirra verkefna sem Covid hefur fært okkur í tengslum við að útvega þær vörur sem heilbrigðiskerfið þarfnast og þjónusta með bestum hætti heilbrigðisstarfsmenn sem hafa barist í bökkum við að ráða við risavaxin verkefni, heldur ekki síður að halda uppi órofinni starfsemi vegna smita. Það hefur verið okkur, eins og flestum fyrirtækjum heims, snúið verkefni. Þetta samanlagt hefur gert það að verkum að árið var mjög annasamt og oft á tíðum var þörf á útsjónarsemi og snörum handtökum.

Það hefur því  verið krefjandi verkefni að halda á lofti sjálfbærni- og samfélagsverkefnum samhliða þessu sérstaka ástandi. Ég tel þó að það hafi tekist eins vel og hægt er að ætlast til. Það má þakka aðkomu fjölmargra starfsmanna, en þessi málaflokkur hefur verið skilgreindur sem hluti af starfi allra, sér í lagi stjórnenda, í stað þess að fela einstökum starfsmanni/deild verkefnið. 

Á árinu 2022 bindum við vonir við að eðlilegt rekstrarumhverfi skapist að nýju og setjum því fram metnaðarfull markmið, bæði hvað varðar kolefnisspor okkar, en einnig ýmis umbótaverkefni sem spruttu upp úr vinnustofum allra stjórnenda sem haldin var í upphafi þessa árs.

Markmið okkar fyrir 2022 má sjá hér neðar.

Hrund Rudolfsdóttir, forstjóri Veritas


Stefna og starfsemi

Veritas og dótturfélög starfa á sviðum heilbrigðisþjónustu.

Veritas ehf. er í einkaeigu og er félagið með starfsemi á sex stöðum á höfuðborgarsvæðinu og jafnframt með minniháttar starfsemi á tveimur stöðum á Kaupmannahafnarsvæðinu. Höfuðstöðvar samstæðunnar eru í Hörgatúni 2. Heildarvelta samstæðunnar á árinu 2021 var 28,2 ma. og fjöldi stöðugilda var í lok árs 249.

Stefna Veritas er að sérhæfa sig í rekstri fyrirtækja á sviði heilbrigðisþjónustu. Veritas er móðurfélag fyrirtækjanna Vistor hf., Distica hf., Artasan ehf. MEDOR ehf. og Stoð ehf. Fyrirtækið er kjölfesta samstæðunnar og veitir þjónustu til dótturfyrirtækjanna svo þau geti einbeitt sér að kjarnastarfsemi sinni. Með þessu móti vinnum við með heilbrigðiskerfinu að því að auka lífsgæði Íslendinga.

Samstæðan setti sér markmið um vöxt og fjölþættingu, sem unnið hefur verið skipulega að frá 2015 til dagsins í dag, bæði með innri vexti og útvíkkun á starfsemi, en alltaf innan skilgreinds ramma heilbrigðissviðs.

Markmiðin taka til:

  • Vaxtar í tekjum og arðsemi
  • Markaðshlutdeildar á núverandi mörkuðum, sem og markmiða í öflun nýrra tekjuþátta
  • Ánægju viðskiptavina
  • Skipulags og aukinnar framleiðni með rafrænum lausnum
  • Gæða í ferlum og starfsháttum
  • Stjórnarhátta og starfsánægju starfsmanna

Áformað er að setja niður nýja vaxtastefnu í lok árs til næstu fimm ára.

Skipurit (2)

Yfirstjórn Veritas

Dagmar Ýr Sigurjónsdóttir, markaðsstjóri hjá Vistor

Stjórnarhættir

Gagnsæi, heiðarleiki og siðferði.
  • Veritas leggur áherslu á gagnsæi, heiðarleika og gott siðferði í starfi sínu. Í heiðri eru höfð gildi fyrirtækisins og dótturfélaga þess; áreiðanleiki, hreinskiptni og framsækni. Fyrirtækið fylgir leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja sem Viðskiptaráð o.fl. hafa gefið út, en þær fela í sér leiðbeiningar um innleiðingu reglna sem eru umfram það sem kveðið er á um í lögum og ætlað er að styrkja innviði fyrirtækisins og traust þess út á við.

    Hægt er að lesa um siðareglur, starfsmannastefnu, starfsreglur stjórnar, stjórnarhætti og upplýsingaöryggisstefnu Veritas og dótturfélaga með því að smella á krækjurnar hér fyrir neðan.

  • Siðareglur
  • Starfsmannastefna
  • Starfsreglur stjórnar
  • Stjórnarháttayfirlýsing
  • Upplýsingaöryggisstefna

Ógnanir og tækifæri í ytra umhverfi

Starfsemi samstæðunnar er háð ytri aðstæðum á ýmsa vegu en veigamestu áhrifaþættirnir eru eftirfarandi:

  • Þróun íslensku krónunnar hefur veruleg áhrif á heildarafkomu samstæðunnar, þar sem lyfjaverð er skráð í erlendri mynt. Einnig eru margir samningar við hið opinbera tengdir gengi með einum og öðrum hætti. Vörukaup samstæðunnar eru einnig í erlendri mynt að nær öllu leyti, sem og ýmsir þjónustusamningar við erlenda birgja. Mikil hreyfing á íslensku krónunni getur því haft margvísleg áhrif á rekstur og starfsemi.
  • Stór hluti af starfsemi samstæðunnar liggur innan skilgreinds ramma heilbrigðiskerfisins og er starfsemin því vörðuð lögum, reglugerðum og opinberu eftirliti á ýmsa vegu. Samstæðan er því háð pólitískum og stjórnsýslulegum ákvarðanatökum, sem oft eru ekki fyrirsjáanlegar og tækifæri til að koma á framfæri athugasemdum eru lítil.

Siðareglur

Kjarnastarfsemi samstæðunnar er innflutningur og markaðssetning lyfja og kallar starfsemin á vönduð vinnubrögð. Siðareglur sem gilda fyrir alla samstæðuna voru settar árið 2018 en það eru sérstakar reglur sem snúa að samskiptum við heilbrigðisstarfsmenn. Alþjóðlegar siða- og samskiptareglur lyfjafyrirtækja og heilbrigðisstarfsmanna, EFPIA, eru einnig hafðar í forgrunni. Markmiðið með reglunum er að tryggja fagleg vinnubrögð við markaðssetningu lyfja og að allar ákvarðanir opinberra starfsmanna séu hafnar yfir allan vafa. Samskiptareglur eru í samræmi við kröfur ESB tilskipunar 2001/83/EB, með síðari breytingum.

Jafnframt eru í gildi siðareglur samstæðunnar sem snúa að samskiptum við alla aðra en heilbrigðisstarfsmenn.

Stod 6204

Stoð, Hafnarfirði

Starfsmannastefna

Veritas starfar samkvæmt ákvæðum gildandi kjarasamninga hverju sinni er heyra undir Samtök atvinnulífsins og viðkomandi stéttarfélaga. Stærstur hluti starfsmanna Veritas samstæðunnar eða um 70% eru félagsmenn í VR en aðrir starfsmenn eru félagsmenn fagstéttarfélaga s.s. Lyfjafræðingafélags Íslands, Verkfræðingafélags Íslands, Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, Félags íslenskra náttúrufræðinga og Rafiðnaðarsambands Íslands, svo eitthvað sé nefnt. Einhverjir starfsmenn hafa kosið að standa utan stéttarfélaga.

Meginmarkmið starfsmannastefnu Veritas eru:

  • Að starfsánægja sé ávallt í hámarki til að efla liðsheild og hámarka árangur í starfi
  • Að launakjör séu samkeppnishæf við það sem greitt er fyrir sambærileg störf á markaði
  • Að gæta jafnréttis í einu og öllu
  • Að stuðla að jafnvægi á milli starfs og einkalífs
  • Að tryggja að upplýsingamiðlun uppfylli þarfir starfsmanna og fyrirtækisins
  • Að starfsmenn fái reglulega hreinskiptna og uppbyggilega endurgjöf um frammistöðu sína
  • Að uppfylla í öllu þarfir og kröfur birgja og þess lagaumhverfis sem við búum við
  • Að tryggja starfsþróun með sí- og endurmenntun starfsmanna
  • Að starfsmenn kappkosti að vinna að eflingu liðsheildar og miðli þekkingu og reynslu á þann hátt að það nýtist öðrum jafnt sem þeim sjálfum.

Hér má sjá starfsmannastefnu Veritas í heild sinni.

Stjórnarhættir og starfsreglur stjórnar

Stjórn Veritas leggur áherslu á að tileinka sér góða stjórnarhætti og hefur gagnsæi, heiðarleika og gott siðferði að leiðarljósi. Þá hefur stjórnin einnig í heiðri gildi fyrirtækisins og dótturfélaga þess; áreiðanleika, hreinskiptni og framsækni. Stjórnin leggur sig fram um að nýta leiðbeiningar um stjórnarhætti fyrirtækja, sem Viðskiptaráð o.fl. hafa gefið út, í því skyni að auka gæði stjórnarstarfsins og fylgir viðkomandi tilmælum eða útskýrir frávik eftir því sem við á í þessari stjórnarháttayfirlýsingu.

Stjórn Veritas gefur á hverju ári út stjórnarháttayfirlýsingu í tengslum við ársskýrslu. Stjórnin annast um að skipulag félagsins og starfsemi séu jafnan í góðu horfi, svo og að hagsmuna allra hluthafa sé ávallt gætt. Hún fer með æðsta vald í málefnum félagsins á milli hluthafafunda og ber meginábyrgð á rekstri þess. Stjórn hefur forystu ásamt forstjóra við mótun stefnu og setningu markmiða. Stjórnin ber endanlega ábyrgð á rekstri félagsins og leggur því áherslu á að hafa góða yfirsýn yfir starfsemina og veita stjórnendum eðlilegt aðhald.

Stjórnarháttayfirlýsingin gerir grein fyrir því hvernig samsetningu og verklagi stjórnar var háttað á undangengnu ári og má finna hér.

Í Veritas eru virkar stjórnir yfir öllum félögunum og við val stjórnarmanna í hverju félagi fyrir sig er leitast við að fá til liðs við samstæðuna ytri stjórnarmenn með sérþekkingu og reynslu á viðkomandi sviði í bland við innri stjórnendur.

Fjöldi stjórnarmanna er 3-4 og er þess gætt að hlutfall kynjanna innan sérhverrar stjórnar sé í samræmi við leiðbeiningar um stjórnarhætti. Hver stjórn setur sér starfsreglur og framkvæmir reglulega mat á eigin starfsháttum. Stjórnarmenn upplýsa að lágmarki árlega um hagsmuni sem gætu skapað hagsmunaárekstra. Tíðni stjórnarfunda er mismunandi eftir félögum og eftir því sem ástæða þykir til, en að lágmarki fjórum sinnum á ári. Engar undirnefndir stjórna eru starfandi hjá félaginu.

Hver stjórn setur sér starfsáætlun, sem er uppfærð reglulega, þar sem gætt er jafnvægis á milli fjárhagslegra og ófjárhagslegra málefna, s.s. jafnréttismála, samfélagsmála og umhverfismála.

Í ársbyrjun 2022 kom upp persónulegt atvik sem tengdist eiganda og stjórnarformanni félagsins, Hreggviði Jónssyni, sem varð til þess að hann sagði sig úr stjórn móðurfélagsins og annarra félaga samstæðunnar. Í kjölfarið hefur farið fram skoðun stjórnar á ferlum sem styðja við farsæla lausn slíkra mála. Atvikið gerðist utan tímasviðs þessarar skýrslu, en þar sem það er talið veigamikið er rétt að minnast á það hér. En farvegi úrbótavinnu mun verða gerð betri skil að ári.

Framkvæmdastjórn ber ábyrgð á ákvarðanatöku um efnahagslega, umhverfislega og félagslega þætti. Hún hefur falið umhverfisnefnd að vinna að helstu verkefnum umhverfismála og mannauðsstjóra að fjalla um félagslega þáttinn, en forstjóri og stjórn fjalla um stjórnarhætti.

Hér fyrir neðan er yfirlit yfir alla stjórnarmenn samstæðunnar, en stjórnarformaður Veritas er jafnframt stærsti hluthafi félagsins.

Hluthafar eru þrír, Stormtré, Trausttak og Stjánkur:

  • Stormtré ehf., 90%, í eigu Hreggviðs Jónssonar og Jóhanns Jónssonar, stjórnarformanns í Distica.
  • Trausttak ehf., 6%.
  • Stjánkur ehf., 4%, í eigu Hrundar Rudolfsdóttur forstjóra.
Guðrúnarborg Stjórn

Guðrúnarborg - stjórn

Upplýsingaöryggi

Veritas samstæðan vinnur fyrir u.þ.b. 350 erlenda birgja sem stundum geta átt í innbyrðis samkeppni og gera því miklar kröfur um trúnað og varðveislu gagna. Móðurfélagið ber ábyrgð á rekstri upplýsingakerfa fyrir samstæðuna og vinnur samkvæmt upplýsingaöryggisstefnu sem tekur mið af og er vottuð samkvæmt ISO/IEC 27001.

Veritas er handhafi skírteinis nr. IS 607526 frá BSI (The British Standards Institution) í London og er það vottun þess að fyrirtækið starfræki stjórnkerfi upplýsingaöryggis sem uppfyllir kröfur ISO/IEC 27001:2013. Veritas og dótturfélög þess fylgja upplýsingaöryggisstefnu sem tekur mið af ISO/IEC 27002, Starfsvenjum fyrir stjórnun upplýsingaöryggis.

Samfélagsstefna og áherslumál

Í ár var megináhersla félagsins sú að ná betur utan um stöðumat sjálfbærniverkefna, markmiðasetningu og útreikning mælikvarða, en einnig forgangsröðun og mat á ásættanlegri frammistöðu til lengri tíma. Félagið lætur til sín taka í umhverfisvernd, öryggismálum, jafnréttismálum, málrækt, stuðningi við starfsfólk af erlendum uppruna, sem og hvað varðar þá sem eiga erfitt uppdráttar í atvinnulífi. Áherslur í mannauðsmálum varða heilbrigði starfsmanna, hvatningu til aukinnar hreyfingar og mikilvægi góðs mataræðis, en einnig jafnrétti kynjanna, vinnuvernd, fjölbreytni og forvarnir gegn einelti. Tekin var meðvituð ákvörðun um að það yrði breiður hópur starfsmanna sem myndi koma að málaflokknum.

„Ákvörðunin um að birta Samfélags- og sjálfbærniskýrslu á samstæðugrundvelli, þrátt fyrir að hafa ekki um það nokkra ytri kröfu, hefur verið okkur farsæl. Um leið eru málefnin sem henni tilheyra komin á dagskrá, orðin sýnileg og hluti af okkar daglegu starfsemi. Að vinna þetta sem samstæða skiptir öllu máli, því að til að ná árangri þarf ákveðinn slagkraft. Jafnframt tel ég mikilvægt að búa til farveg og virkja þá sem hafa einlægan áhuga  á málaflokknum. Í ár voru umhverfismálin sannarlega fyrirferðarmest en margir af mikilvægustu ferlunum okkar fara þvert í gegnum samstæðuna og eru því áhugaverðir út frá umhverfissjónarmiðum.

„Helsti sjálfbærniárangur okkar á árinu er að fara á dýptina í umhverfismálin, bæði hvað varðar markmiðasetningu og mælingu en einnig að koma auga á möguleg úrbótamál. Það má eiginlega segja að því dýpra sem maður kemst, því betur sér maður hvað tækifærin eru stórkostleg og hversu stutt við erum komin í heildstæðri sjálfbærnihugsun, ekki bara innan veggja fyrirtækisins heldur líka í samfélaginu í heild sinni.

Sjálfbærni er nú hluti af viðskiptastefnunni, varð t.d. hluti af föstum KPI´s sem framkvæmdastjórnin horfir á mánaðarlega, hluti af frammistöðumati og hvatakerfum, sem eru allt skref sem styðja við ferlið og tryggja að sjálfbærnihugsunin verði hluti af okkar DNA,“ segir Hrund.

Um skýrsluna

Þessi skýrsla er önnur sjálfbærni og samfélagsskýrsla Veritas samstæðunnar og tekur til ársins 2021. Hún verður gefin út einu sinni á ári. Mælingar fyrir 2019 og 2020 verða jafnframt sýndar að einhverju leyti þar sem 2021 var óvenjulegt ár fyrir margra hluta sakir. Skýrslan er gefin út samkvæmt viðmiðum Global Reporting Initiative GRI Standards: Core. Starfsmenn af öllum sviðum félagsins koma að ritun skýrslunnar. Þær upplýsingar sem birtast í skýrslunni koma úr upplýsingakerfum félagsins og endurspegla þá þekkingu sem félagið hafði þegar skýrslan var rituð. Umhverfishópur tók saman upplýsingar um umhverfismál og reiknaði út kolefnisfótspor félagsins. Hluti upplýsinganna kemur fram í viðtölum sem tekin voru við lykilstarfsmenn, sem hafa haft sjálfbærnimál sem umfangsmikinn hluta af sinni vinnu.

Veritas er samstæða og allar tölur eru settar fram á samstæðugrunni, þ.e. innbyrðis færslur eru færðar út. Í einstaka tilfellum kjósum við að horfa einnig til systurfélags Veritas, Hávarðsstaða, sem á og rekur stóran hluta af þeim fasteignum sem Veritas hefur til umráða. Er það tekið fram sérstaklega, ef við á.

Tengiliðir vegna upplýsinga er varða skýrsluna og efni hennar eru Hrund Rudolfsdóttir, Pétur Veigar Pétursson, Kjartan Steinsson og Dagmar Ýr Sigurjónsdóttir. Leiðsögn og gæðatrygging skýrslunnar var í höndum Podium ehf.

Persónuvernd

Veritas hefur sett sér stefnu og reglur varðandi meðferð persónuupplýsinga til þess að tryggja að fyrirtækið fari eftir lögum íslenska ríkisins nr. 90/2018 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Veritas veitir starfsmönnum og viðskiptavinum sínum örugga og trausta þjónustu með því að:

  • Kappkosta að hverskonar persónuupplýsingar sem Veritas safnar og vistar séu meðhöndlaðar samkvæmt lögum og reglugerðum um vernd persónulegra gagna, þ.e. laga nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.
  • Hámarka öryggi og réttmæti persónuupplýsinga sem varðveittar eru hjá fyrirtækinu.
  • Starfsmenn og umsækjendur séu upplýstir um hvaða persónuupplýsingar um þá eru varðveittar, hvernig þær eru vistaðar, hver hafi aðgang að þeim og hvenær þeim verði eytt.
  • Tryggja að viðbrögð við öryggisbrestum séu skv. lögum.

Persónuverndarstefna Verita
Persónuverndarreglur umsækjanda, starfsmanna og viðskiptavina.

Voruhus 0179

Vöruhús Distica Miðhrauni