Ása Jóhannesdóttir ráðin framkvæmdastjóri hjá Stoð

15.06.2020 Stoð + Veritas
Ása Jóhannesdóttir ráðin framkvæmdastjóri hjá Stoð

Ása Jóhannesdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri hjá stoð- og hjálpartækjafyrirtækinu Stoð. Hún tekur við af Elíasi Gunnarssyni sem lætur af störfum eftir farsælt starf. Elías hefur leitt félagið síðan 2005 og lætur nú af störfum sökum aldurs.

Ása hefur starfað sem deildarstjóri hjúkrunar- og lækningavörudeildar MEDOR síðastliðin 6 ár, var áður viðskiptastjóri hjá MEDOR og vörustjóri hjá Flögu. Hún er með MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík, M.Sc. gráðu í heilbrigðisvísindum og B.Sc. gráðu í hjúkrunarfræði frá Háskóla Íslands.

Ása er gift Sigurði G. Kristinssyni jarðfræðingi og eiga þau fjögur börn. Ása hefur störf hjá Stoð í dag 15. júní.

„Mér er það mikill heiður að taka við stöðu framkvæmdastjóra hjá Stoð. Hjá fyrirtækinu starfar samhentur hópur fagfólks sem með einstakri þjónustu veitir lausnir til þeirra sem þurfa á stuðningi og aðstoð að halda. Öll viljum við geta gengið um án verkja, leikið okkur og notið lífsins. Þegar við eldumst, heilsunni hrakar eða fyrir þá sem fæðast með skerta færni er ómetanlegt að geta leitað til fagfólks sem skilur þarfir manns, þekkir og kann að finna lausnir við vandamálinu. Að setja hagsmuni einstaklingsins í fyrsta sæti er það sem ég brenn fyrir. Ég hlakka til að styrkja Stoð og leiða það til framtíðar“  er haft eftir Ásu.

Stoð er í eigu Veritas samstæðunnar sem festi kaup á fyrirtækinu  í árslok 2018.

Forstjóri Veritas er Hrund Rudolfsdóttir. Hrund segir breytingarnar spennandi Á sama tíma og við kveðjum Elías og þökkum honum kærlega fyrir frábært samstarf, þá er gaman að kynna Ásu til leiks, hún kemur að borði með nýja sýn og áherslur sem munu án efa færa Stoð áfram inn í nýja tíma.  Við ætlum okkur mikla landvinninga á þessu sviði, án þess þó að tapa neinum boltum í þeirri mikilvægu þjónustu sem Stoð veitir á hverjum degi til skjólstæðinga og viðskiptavina sinna".

Stoð er rótgróið framleiðslu- og þjónustufyrirtæki á heilbrigðissviði. Stoð framleiðir og selur stoðtæki, gervilimi, spelkur, bæklunarskó, innlegg og aðrar stuðningsvörur. Auk þess selur Stoð hjálpartæki fyrir hreyfihamlaða, hjólastóla og göngugrindur ásamt því að reka verkstæði sem sér um viðgerðarþjónustu á hjálpartækjum.

Fyrirtækið býður einnig upp á göngugreiningu, selur íþróttaskó, þrýstingssokka, gervibrjóst og ferðakæfisvefnsvélar. Markmið Stoðar er að bjóða upp á heildarlausnir fyrir einstaklinga með fötlun, áverka og sjúkdóma sem valda skertri færni í daglegu lífi. Hjá Stoð starfa um 35 manns í Hafnarfirði og á Bíldshöfða.